Mýrarboltinn haldinn í Bolungarvík í ár

15.03.2017 - 17:40
Mynd með færslu
 Mynd: Brynja Huld Óskarsdóttir
Evrópumeistaramótið í Mýrarbolta verður haldið í Bolungarvík í ár en undanfarið hefur mótið farið fram í Tungudal á Ísafirði. Mótið hefur farið fram um verslunarmannahelgina síðan 2004.

Visir.is greinir frá því að mótið í ár verður haldið á þremur völlum við tjaldsvæðið í Bolungarvík en tjaldsvæðið er í næsta nágrenni við íþrótthús og sundlaug bæjarins.

Vilja efla þjónustuna við keppendur 

Nýr drullusokkur mótsins er Benedikt Sigurðsson, eða Benni Sig, en drullusokkurinn sér um skipulagningu og framkvæmd mótsins. Hann segir að breytingin sé liður í því efla þjónustu á mótinu og bregðast þannig við því að þátttakendum hefur fækkað undanfarin ár. Betri þjónusta felist til dæmis í því að allt sem þátttakendur hafi að sækja sé á svipuðum slóðum, tónleikastaður, sundlaug, tjaldsvæði og keppnisvellir. Hann segir jafnframt að í Tungudal hafi oft myndast umferðarteppa og flöskuháls vegna mjórra vega og skorts á bílastæðum, í Bolungarvík sé aðgengi betra og nóg af bílastæðum. 

Mynd með færslu
 Mynd: Halla Ólafsdóttir  -  RÚV
Mjög þröngt er á veginum um Tungudal

Benedikt segir að breytingin á staðsetningu mótsins sé ekki ákvörðun til framtíðar heldur tilraunaverkefni. 

Mynd með færslu
Halla Ólafsdóttir
Fréttastofa RÚV