Myndband: Eldri hjón í öldusogi á Bretagne

10.02.2016 - 09:48
Eldri maður hefur sogast út með öldu. Kona hans og maður sem var viðstaddur reyna að koma honum til hjálpar.
 Mynd: Youtube.com  -  Skjáskot
Eldri hjón lentu í lífsháska á Bretagne-skaga í gær. Fólkið fylgdist með brimi í Porsguen úr því sem virtist næg fjarlægð. Stór alda gekk hins vegar mun hærra upp í víkina en fólkið átti von á.

Eldri maður, 75 ára, missti fótanna og sogaðist út með öldunni. Kona hans og maður sem var nærstaddur, komu honum til bjargar. Fólkið komst á þurrt, heilu og höldnu.

Sagt er frá málinu á vef Le Parisien. Það var vefur Le Télégram sem greindi fyrst frá. 

Aðstæðurnar eru ekki ósvipaðar þeim sem eru til að mynda í Reynisfjöru og í Kirkjufjöru við Dyrhólaey. Á báðum stöðum hafa ferðamenn ítrekað lent í stórhættu þegar stórar öldur koma þeim að óvörum langt upp í fjöruna.

Ströndin þar sem fólkið sogaðist út með ölduróti. 

 

Víkin er á Bretagne-skaga á vesturströnd Frakklands. 

 

 

Kári Gylfason
Fréttastofa RÚV