Mygla í húsi geðdeildar Landspítalans

10.02.2016 - 20:04
Sjúkrastofu og skoðunarherbergi hefur verið lokað á geðdeild Landspítalans vegna myglu. Starfsfólk hefur veikst og umfangmiklar viðgerðir blasa við.

Hús Landspítalans á horni Hringbrautar og Eiríksgötu hýsir kjarnann af starfsemi geðsviðs Landspítalans. Það var byggt árið 1980 og í því eru átta geðdeildir. Á einni er nú komin upp mygla, eins og mbl.is greindi frá í dag.

Taka þarf allt húsið í gegn að utan sem kostar um 200 milljónir króna. Búið er að eyrnamerkja 50 milljónir af fé spítalans í viðgerðirnar, sem hefjast í sumar, og fyrst verður gert við þær hliðar hússins sem eru verst farnar. Í sjónvarpsfréttinni er sýnt hvernig myglan birtist á geðdeildinni og rætt við forsvarsmenn spítalans.

 

Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV