Mótmælir gagnrýni Árna Páls

20.01.2016 - 21:33
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, segir gagnrýni Árna Páls Árnasonar, formanns Samfylkingarinnar, á sölu bankans á hlut í Borgun vera óréttmæta. Stjórnmálamenn eigi ekki að kalla eftir rannsóknum eftirlitsstofnana á einstaka fyrirtækjum.

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, vill að sala Landsbankans á hlut sínum í félaginu Borgun fyrir rúmu ári verði rannsökuð. Félagið hagnast um milljarða vegna yfirtöku Visa internatinoal Service á Visa Europe. Landsbankinn fær ekkert í sinn hlut af þessum hagnaði.

Í kvöldfréttum RÚV sagðist Árni Páll telja að Landsbankann væri rúinn trausti. „Skýringar bankastjórans núna benda til þess að bankinn hafi gert alvarleg mistök í að greina viðskiptatækifærið sem í þessu fyrirtæki, Borgun, fólst. Það er auðvitað þannig að það getur ekki nokkur maður treyst verðmati Landsbankans á fyrirtæki þegar menn heyra þessa lýsingu.“

Segir gagnrýnina óréttmæta

Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, mótmælir þessum orðum Árna Páls, segir bankann hafa náð góðum árangri í verðmati og sölu fyrirtækja og lágmarkað áhættu í rekstri bankans með því að selja hluti í fyrirtækjum í óskyldum rekstri. Gagnrýnin sé óréttmæt og byggi á eftirávísindum í viðskiptum.

„Samkvæmt þeim upplýsingum sem Landsbankinn hefur byggja þessar greiðslur VISA til Borgunar, sem þeir eiga von á, að lang mestu leyti á vexti í erlendri VISA þjónustu Borgunar eftir að Landsbankinn seldi sinn hlut í fyrirtækinu árið 2014“.

Ekki stjórnmálamanna að kalla eftir rannsóknum FME

Árni Páll kallar eftir því að bæði Alþingi og Fjármálaeftirlitið láti til sín taka og rannsaki söluferlið. Steinþór segist ekki hræðast slíka rannsókn.

„Stjórnmálamenn eiga heldur ekki að kalla eftir einstökum rannsóknum frá eftirlitsaðilum. En FME, ef þeir telja ástæðu til að gera athugun á þessu þá er sjálfsagt að fara í gegnum það. En við skulum muna eftir því að leikkerfin sem við störfum eftir eru sett af Alþingi og það gengur út á það að stjórnmálamenn séu ekki að fara beint inn í málin“. 

Yfirlýsing Landsbankans

Landsbankinn sendi frá sér tilkynningu vegna ummæla Árna Páls í sjónvarpsfréttum í kvöld. Þar segir meðal annars að Landsbankinn hafi fengið upplýsingar um áætlanir Borgunar um aukin umsvif á erlendum mörkuðum. Landsbankinn taldi þau viðskipti áhættusöm og byggði mat sitt á erfiðleikum við útrás íslenskra kortafyrirtækja fyrir nokkrum árum. Bankinn hafi markvisst reynt að takmarka áhættu í rekstri frá endurreisn hans árið 2008.

Þá segir einnig að „Landsbankinn hefur verið gagnrýndur fyrir að hafa ekki sett svipaða fyrirvara inn í samninginn við Borgun, varðandi mögulegar greiðslur í tengslum við yfirtöku Visa Inc. á Visa Europe, og gert var í samningnum vegna sölu á Valitor." Að sögn Landsbankans er það vegna þess að Borgun hafði nánast eingöngu gefið út Mastercard-kort, en ekki Visa-kort, þegar Landsbankinn samdi við borgun. Ólíkt viðskiptasamband við Valitor annars vegar og Borgun hins vegar sé þess valdandi að ekki er talinn grundvöllur til samninga um viðbótargreiðslu í tengslum við sölu bankans á hlutabréfum í Borgun, þar sem engin Visa-viðskipti hafi verið á milli þeirra.