„Mjög rökrétt og skynsamlegt“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, telur rökrétt og skynsamlegt af borgarstjóra að leggja til að draga til baka tillögu um viðskiptabann gegn Ísrael, hún hafi ekki verið nógu vel undirbúin. Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknar, segir borgarstjóra á harðahlaupum frá tillögunni.

Alþingi samþykkti í lok nóvember 2011 með 38 atkvæðum tillögu um viðurkenningu á sjálfstæði og fullveldi Palestínu. Höskuldur Þórhallsson telur samþykkt borgarstjórnar um viðskiptabann á Ísrael skaða þá tillögu. Fyrir utan hve gríðarlegir hagsmunir séu í húfi og vitnar þar í fréttir RÚV um að áform um byggingu hótels hjá Hörpu séu í uppnámi og bréf bankastjóra Arion banka til borgarstjóra þess efnis. Samt hafi tillaga um viðskiptabann verið í undirbúningi í meira en ár.

Borgarstjóri er á harðahlaupum undan henni og segir að bréf bankastjóra hafi ekki haft bein áhrif. Ég spyr hæstvirtan þingmann hvert er hans viðhorf við þessu telji hann að það sé hægt með því að draga tillöguna til baka verja þá gríðarlegu hagsmuni sem að eru hér í húfi,“ sagði Höskuldur og beindi spurningum sínum til formanns Samfylkingarinnar og hvort hann hefði stutt tillöguna.

Árni Páll segir tillögu borgarstjórnar í fullu samræmi við hvatningu formanna annarra jafnaðarmannaflokka á Norðurlöndum um að eðlilegt væri að grípa til aðgerða. „Ég tel það mjög rökrétt og skynsamlegt af borgarstjóra að leggja til að draga samþykktina til baka vegna þess að það þurfti að vinna hana betur það hefur komið í ljós það hefur orðið ljóst af allri opinberri umræðu og þannig vinna alvöru stjórnendur þeir moka sig ekki dýpra í holu þegar að vandræði koma upp heldur leita þeir leiða til að bæta fyrir þau.“