Minna umstang og betri árangur

13.02.2016 - 20:00
Hin sjö ára gamla Guðrún Benney Ólafsdóttir er eftir á í málskilningi og á erfitt með að bera fram „r“. Hún tilheyrir því þeim 10% barna sem þurfa aðstoð við að læra að tala en enginn talmeinafræðingur er starfandi á Patreksfirði þar sem hún býr.

Guðrún hefur því þurft að ferðast suður til Reykjavíkur til að fara til talmeinafræðings með tilheyrandi umstangi fyrir fjölskylduna og takmörkuðum árangri. En nú hefur orðið breyting þar á með hjálp tækninnar 

„Hugmyndin er í rauninni að auka aðgengi að þjónustu sem nánast ekkert aðgengi hefur verið að, allavega víða á landsbyggðinni. Að nýta betur skólann og skólatímann í þessa sérfræðiþjónustu og tryggja að barnið fái sérfræðiþjónustu sem það á rétt á og þarfnast,“ segir Tinna Sigurðardóttir, talmeinafræðingur hjá fyrirtækinu Tröppu sem sérhæfir sig í fjartalþjálfun í gegnum tölvu. Þjónustan byrjaði sem tilraunaverkefni í Vesturbyggð. 

Lykilatriði í talþjálfun er að hún sé markviss og regluleg og fjarþjálfunin virkar vel upp á það að gera. Að auki eru börnin þá í sínu umhverfi og þurfa ekkert að fara nema í næstu skólastofu. 

„Þetta breytir rosalega miklu fyrir hvert barn. Það er búið að sýna fram á að málþroski hefur fylgni við námsárangur, lestrarfærni og félagslega afkomu á fullorðinsárum. Þannig að það er rosalega mikilvægt að hlúa að þessu.“

Landinn fór í talþjálfun á Patreksfirði hjá talmeinafræðingi í Reykjavík. 

Þáttinn í heild er hægt að sjá hér. Landinn er einnig á Facebook sem og á YouTube og Instagram: #ruvlandinn.

Mynd með færslu
Edda Sif Pálsdóttir
Landinn