Míla segir Gagnaveituna ósamvinnuþýða

17.06.2017 - 08:03
Ethernet hub.
 Mynd: jadey919  -  RGBStock
Míla segir Gagnaveitu Reykjavíkur neitar að veita Mílu aðgengi að skurðum sem grafnir eru til lagningar ljósleiðara. Því hafi sumstaðar þurft að grafa tvo skurði með tilheyrandi jarðraski og kostnaði. Sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu hafa reynt að koma á samstarfi milli veitufélaganna en ekki tekist. Sveitarfélögin hafa þurft að ná fram samstarfi fyrirtækjanna með því að setja skilyrði í framkvæmdaleyfi fyrir skurðgreftri Gagnaveitunnar um að Míla fái aðgang að skurðunum.

Fyrirtækin tvö keppast nú um að leggja ljósleiðara inn á heimili á höfuðborgarsvæðinu og leggur hvort sinn ljósleiðarann. Míla hefur undanfarna mánuði barist fyrir því að fá Gagnaveituna í samstarf um að fyrirtækin grafi aðeins einn skurð og báðir ljósleiðararnir verði lagðir í hann í stað þess að raska jarðvegi og umhverfi í tvígang. Jón Ríkharð Kristjánsson, framkvæmdastjóri Mílu, segir að Gagnaveitan hafi reynst ósamvinnuþýð og ekki fallist á beiðnir Mílu um að veita aðgang að skurðum sínum. „Við óskuðum í mars eftir samstarfi við Gagnaveituna, kölluðum þá á fund og reyndum að fá þá til samstarfs. Þeir höfnuðu því samstarfi,“ segir Jón.

Hann bendir á að Mílu sé skylt, vegna þess að fyrirtækið telst markaðsráðandi, að veita Gagnaveitunni aðgang að sínum skurðum. „Við þurfum að tilkynna með sex mánaða fyrirvara hvar við ætlum að grafa skurði og heimila öðrum veitufyrirtækjum aðgang að þeim,“ segir Jón.

Míla þarf ekki að grafa eins mikið af skurðum og Gagnaveitan því Míla er með koparleiðslur í flest hús og geti dregið ljósleiðarann í þau rör, að sögn Jóns. „Við þurfum aftur á móti að grafa holur þar sem rörin tengjast,“ segir hann. Þær holur vilji Míla vinna í samstarfi við Gagnaveituna, svo ekki þurfi að grafa tvisvar í sömu götunni með tilheyrandi jarðvegsraski og ónæði fyrir íbúa.

Sveitarfélögin vilja samstarf Mílu og Gagnaveitunnar

Vilji sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu stendur til þess að Míla og Gagnaveitan noti einn og sama skurðinn fyrir ljósleiðaralagnir sínar. Haldnir hafa verið sáttafundir þar sem reynt er að miðla málum milli þeirra án árangurs en fyrirtækin mega ekki hefja framkvæmdir án framkvæmdaleyfis frá sveitarfélaginu. Í gær gaf Kópavogsbær út framkvæmdaleyfi fyrir ljósleiðarlögn Gagnaveitunnar í hluta sveitarfélagsins. Þar sem ekki tókust samningar milli Gagnaveitunnar og Mílu gaf Kópavogsbær út leyfið með tveimur skilyrðum. Annars vegar þau að Gagnaveitan skuli leggja tvo ljósleiðara í skurðina svo mögulegt verði að leigja öðrum annan strenginn. Hins vegar beri Gagnaveitunni að tilkynna til eftirlitsmanns Kópavogsbæjar um lokun skurðar og malbikun með þriggja daga fyrirvara og Mílu skuli gefinn kostur á að merkja þá staði sem skilja á eftir við malbikun. Míla taki við þeim svæðum og beri ábyrgð á að ljúka frágangi við þau.

Í minnisblaði Mílu til Umhverfis- og framkvæmdaráðs Hafnarfjarðar í apríl kemur fram að Gagnaveitan hafi hafnað því að samræma jarðvegsvinnu með Mílu í sumar. Sigurður Haraldsson, sviðsstjóri umhverfis- og skipulagsþjónustu Hafnarfjarðabæjar segir að sveitarfélagið hafi óskað eftir því að Gagnaveitan og Míla væru í samstarfi við jarðvegsframvæmdir og í kjölfarið hafi farið að stað viðræður milli fyrirtækjanna. Þær hafi ekki skilað neinu. „Við getum ekki breytt framkvæmdaleyfum sem þegar hafa verið gefin út. Við munum hinsvegar fara sömu leið og Kópavogur í öllum nýjum framkvæmdaleyfi sem við munum gefa út og setja skilyrði um samstarf fyrirtækjanna,“ segir Sigurður.

Jón á von á því að Mosfellsbær og Seltjarnarnes muni einnig fylgja fordæmi Kópavogs og Gagnaveitan verði þannig þvinguð til samstarfs því það sé hagsmunamál íbúa að ekki verði grafið tvisvar.

Beiðni Mílu kom of seint

Erling Freyr Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gagnaveitu Reykjavíkur, hafnar því að GR hafi meinað Mílu aðgang að skurðum sínum. Gagnaveita Reykjavíkur grafi skurði til að leggja ljósleiðara sinn en Míla sé með lagnir fyrir og þurfi því að grafa holur til að tengja ljósleiðara í lögnunum og þær holur séu ekki endilega á sama stað og skurðir Gagnaveitunnar. Í minnisblaði Gagnaveitunnar til Hafnafjarðarbæjar segir að Míla komi allt of seint inn í verkefnið sem löngu hafði verið skipulagt að fullu. Það sé erfitt fyrir félögin að vinna saman þegar verk er hafið enda þarfirnar mismunandi. Ekki sé forsenda fyrir því að breyta verkefninu í miðri á.

„Í þeim verkefnum Gagnaveitunnar þar sem framkvæmdir eru hafnar er búið að gera samkomulag við íbúa um framkvæmdir á þeirra einkalóðum og búið að semja við framkvæmdaraðila byggt á hönnun okkar,“ segir Erling. „Gagnaveitan sér því ekki flöt á því að breyta verkefni í byrjun apríl sem á að klárast haustið 2017. Míla hefði þurft að vera með í undirbúningsfasa verkefna Gagnaveitunnar árið 2017 svo að félögin gætu framkvæmt saman á árinu en sá fasi verkefnisins var á árinu 2016. Gagnaveitan gerði opinbera viljayfirlýsingu árið 2015 um ljósleiðaravæðingu til heimila við sveitarfélögin á umræddum svæðum,“ segir Erling.

„Þegar veitufyrirtæki vinna saman í verkefnum þá hefst samvinnan á undirbúningsstigi. Lagnir eru hannaðar, fundinn er sameiginlegur framkvæmdaraðili og loks farið í framkvæmd. Gagnaveitan er búin að hanna fyrirhugaðar lagnir, semja við framkvæmdaraðila á grundvelli þeirra hönnunar og er að hefja framkvæmdir í verkefnum í Kópavogi. Aðkoma Mílu nú setur samninga við framkvæmdaraðila og samkomulag við íbúa um framkvæmdir á þeirra lóðum í uppnám,“ segir í minnisblaði Gagnaveitunnar.

„Gagnaveitan fagnar þeirri lausn sem komin er í framkvæmd í Kópavogi, að Gagnaveitan geti nú lokið framkvæmdum með sem minnstu raski og geti þannig tryggt sem best öryggi íbúa á svæðinu og lágmarkað þannig óþægindi íbúa. Lausnina er hægt að heimfæra á önnur verkefni,“ segir Erling.

Fréttin hefur verið lagfærð. Haft var eftir Jóni Ríkharði, framkvæmdastjóra Mílu að hann ætti von á að hin sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu fylgi fordæmi Kópavogs og Hafnarfjarðar og þvingi þannig Mílu til samstarfs. Hér átti að standa „þvingi Gagnaveituna til samstarfs“. 

Sigríður Dögg Auðunsdóttir