Mikilvægt að formaður fari í heilbrigðismálin

10.01.2017 - 21:54
Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar og verðandi heilbrigðisráðherra, segir mikilvægt að formaður eins stjórnarflokkanna verði heilbrigiðsráðherra. Það sé vegna þess hversu mikla áherslu ríkisstjórnin leggi á þann málaflokk. Hann og Björt Ólafsdóttir verða ráðherrar fyrir hönd Bjartrar framtíðar.

Björt Ólafsdóttir, nýr umhverfis- og auðlindaráðherra, segist mjög spennt fyrir því að takast á við málaflokkinn. Hún segir Bjarta framtíð hafa lagt mikla áherslu á umhverfismálum í viðræðum sínum við Sjálfstæðisflokkinn og Viðreisn. „Það eru hlutir í umhverfismálum sem eru nýir hér á Íslandi, til dæmis að afleggja hér stóriðjustefnu, veita ekki ívilnanir til mengandi stóriðju meir. Það eru auðvitað stórar fréttir. Svo eru það loftslagsmálin sem þarf að fara yfir öll og koma með metnaðarfulla aðgerðaáætlun í.

Óttarr Proppé, segir heilbrigðismálin sérstakt forgangsmál ríkisstjórnarinnar og því sé mikilvægt að formaður eins stjórnarflokkanna setjist í sæti heilbrigðisráðherra til að drífa málin áfram. Óttarr segist ekki kominn til að breyta því sem ekki þurfi að breyta. Þó sé ljóst að auka þurfi áherslu á geðheilbrigðismálin og flýta byggingu Landspítalans.

Að ofan má sjá í heild sinni viðtöl sem Viktoría Hermannsdóttir tók við nýja ráðherra Bjartrar framtíðar.