Mikil svifryksmengun í Reykjavík síðdegis

19.04.2017 - 16:23
Mynd með færslu
 Mynd: Brynjólfur Þór Guðmundsson  -  RÚV
Mikil svifryksmengun mældist við Grensásveg í Reykjavík síðdegis í dag Styrkur svifryks í andrúmsloftinu fór yfir 200 míkrógrömm á rúmmetra um klukkan tvö í dag. Þegar svo er, er mælst til að fólk með ofnæmi og/eða alvarlega hjarta- eða lungnasjúkdóma forðist að vera úti þar sem mikil mengun er. Með úrkomu á fimmta tímanum dró hins vegar snarlega úr svifryksmenguninni og mælist hún nú innan heilsuverndarmarka.

Sólarhrings heilsuverndarmörk fyrir svifryk eru 50 míkrógrömm á rúmmetra. Það þýðir að styrkurinn má ekki fara yfir 50 míkrógrömm að meðaltali á einum sólarhring.

Mikil svifryksmengun mældist einnig á mánudagsmorgun. Þá fór hún yfir 1.000 míkrógrömm á rúmmetra.

Ragnhildur Finnbjörnsdóttir hjá Umhverfisstofnun segir að svifryksmengun á mánudagsmorgun skýrist af rokinu sem þá var. Ryk sem safnast hefur upp á götum borgarinnar, hafi þyrlast upp. Þá geti verið að selta frá sjónum og ryk af hálendinu hafi haft sitt að segja.

Kári Gylfason
Fréttastofa RÚV