Merkel sendir þýska liðinu og Degi kveðju

31.01.2016 - 21:10
epa05137721 German players celebrate with head coach Dagur Sigurdsson (C) holding the trophy during the medal ceremony after the 2016 European Men's Handball Championship final game between Germany and Spain at the Tauron Arena in Krakow, Poland, 31
 Mynd: EPA  -  PAP
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hefur sent þýska landsliðinu í handbolta og Degi Sigurðssyni, landsliðsþjálfara, hamingjuóskir með sigurinn á Evrópumótinu í handbolta. Raunar er mynd af Degi með Evrópubikarinn það fyrsta sem sést þegar farið er inn á vef þýska stjórnarráðsins. Hamingjuóskum rignir yfir þýska liðið, frá íþróttastjörnum og stjórnmálamönnum. Búið er að skipuleggja mikla sigurhátíð í miðborg Berlínar á morgun.

Merkel, sem hringdi sjálf í Dag eftir sigurinn á Norðmönnum í undanúrslitum, segir í kveðju sinni að þetta unga lið hafi sýnt baráttuvilja, ástríðu og liðsheild til að ná sínum markmiðum. Liðið hafi skrifað nafn sitt á spjöld þýsku handboltasögunnar og eignast nýja aðdáendur.

Thomas de Maiziere, innanríkisráðherra, segir að hann taki hattinn ofan fyrir þýska liðinu - sigurinn hafi verið mikilvægur fyrir þýskar íþróttir. „Dagur Sigurðsson hefur búið til ungt lið sem við höfum öll hrifist af.“

Meðal annara  sem hafa sent þýska liðinu kveðju sína eru Joachim Gauck, forseti Þýskalands, Franz Beckenbauer, goðsögn í þýsku íþróttalífi, og NBA-stjarnan Dirk Nowitzki.

Fram kemur í þýskum fjölmiðlum að þegar sé búið að skipuleggja mikla sigurhátíð í Berlín á morgun.  Liðinu verður fylgt frá flugvellinum í Berlín og síðan verða leikmennirnir hylltir í Max-Schmeling-Halle.