Meiri og hraðari verðlækkanir með komu Costco

15.07.2017 - 12:08
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Pétur Jónsson  -  RÚV
„Við finnum fyrir hlutdeild Costco að því leytinu til að dregið hefur saman hjá hinum og verðið hefur lækkað, sem er úr takt við það sem áður hefur verið,“ segir Emil B. Karlson, forstöðumaður Rannsóknarseturs verslunarinnar. „Við erum að sjá meiri og hraðari verðlækkanir en við höfum séð áður.“ Velta dagvöruverslana dróst saman um 3,6 prósent í júní sem er úr takt við stöðugan vöxt sem hefur verið. Emil segist ekki kunna aðrar skýringar á samdrættinum en komu Costco. 

Velta dagvöruverslana dróst saman um 3,6 prósent í júní frá sama mánuði í fyrra. Costco er hinsvegar ekki með í mælingunni, enda hluti af stefnu verslunarinnar að veita ekki slíkar upplýsingar, segir Emil. Koma Costco á íslenskan markað sé helsta skýringin á samdrættinum en nú sé afstaðinn fyrsti heili mánður verslunarinnar á Íslandi. 

Smærri verslanir finna mest fyrir samkeppninni

Vísbendingar eru um að skortur hafi verið á samkeppni fyrir komu Costco, segir Emil.

„Þeir sem verða harðast út úr samkeppninni eru líklegast litlu aðilarnir,“ segir hann. „Nú virðast stóraðilarnir vera að bregðast við með því að stækka við sig og breikka þjónustuvalið hjá sér.“ Þá finni heildsalar ekki síður fyrir aukinni samkeppni. „Costco er líka heildasala. Það er í nafninu þeirra. Veitingahús sem áður versluðu við heildsala gætu verlsað frekar við Costco í dag.“

Enda þótt Costco hafi ekki verið með í mælingum RSV kunni markaðshlutdeild verslunarinanr í öðrum löndum að veita vísbendingar um þá hlutdeild sem hún fær hér á landi. Þannig fá „ofurlágvöruverðsverslanir“ eins og Costco átta prósent hlutdeild í Bandaríkjunum og fjögur til átta prósent í Skandinavíu.

 

 

 

 

 

Matthías Tryggvi Haraldsson
Fréttastofa RÚV