„Megum þakka fyrir að það varð ekki banaslys“

08.08.2017 - 08:14
Mynd með færslu
 Mynd: Ragna Sif Sigurdórsdóttir
Umferðin gekk að mestu vel fyrir sig um verslunarmannahelgina, segir Einar Magnús Magnússon, sérfræðingur hjá Samgöngustofu. Þó hefði getað farið enn verr þegar tveir slösuðust í bílveltu á Steingrímsfjarðarheiði í gær. Mikill erill var hjá lögreglu á sunnanverðu landinu en öllu rólegra fyrir norðan og austan.

Einar Magnús mætti í Morgunútvarpið á Rás 2 til að ræða umferðina um helgina. Hann sagði hana að mestu hafa gengið vel fyrir sig. „En það verða síðan svona tilfelli sem vekja mann til umhugsunar eins og bílvelta sem varð á Steingrímsfjarðarheiði í hádeginu í gær. Þá er húsbíll sem veltur og vitni segja að hann hafi farið sjö veltur. Við megum þakka fyrir að það varð ekki banaslys þarna því annar þeirra, sem þarna voru, kastaðist út úr honum. Að áliti okkar og lögreglu eru það sterkar vísbendingar um að það að viðkomandi hafi ekki verið í öryggisbelti.“

Einar Magnús sagði að síðustu fimm ár hafi 62 látist í umferðinni á Íslandi. Þar af voru 49 í bíl og 22 þeirra voru ekki í öryggisbeltum. „Þetta er rétt tæplega helmingur. Það er ekki vitað um þrjá þannig að það gæti alveg verið um það bil helmingur sem er ekki í öryggisbeltum.“ Þetta gerist þrátt fyrir að langflestir noti belti.

Álag á lögreglu

Mikið var um að vera á Suðurlandi og í Vestmannaeyjum um helgina og álag á lögreglumönnum. Átta líkamsárásir voru kærðar til Lögreglunnar í Vestmannaeyjum, þar af eitt þar sem tennur þess sem ráðist var á brotnuðu. Á fimmta tug fíkniefnamála komu upp. Fimm gistu fangaklefa í fyrrinótt, þar af einn vegna heimilisofbeldis, annar fyrir að skemma bíl og sá þriðji fyrir að bera sig í tjörninni í Herjólfsdal. Þjóðhátíðin í ár er með þeim fjölmennustu sem hafa verið haldnar.

Neyðarmóttöku vegna nauðgana höfðu borist upplýsingar um fimm kynferðisbrot á laugardag. Lögreglu á Suðurlandi var tilkynnt um tvö kynferðisbrot á tjaldsvæðum í umdæminu og Lögreglan í Vestmannaeyjum fékk tilkynningar um tvö kynferðisbrot á Þjóðhátíð. Meintir gerendur hafa verið yfirheyrðir en engar kærur lagðar fram. 

Lögreglan á Suðurlandi bókaði 252 mál í dagbók sína um helgina. Mikið ónæði var á unglingatjaldsvæði á Flúðum og lögregla oft kölluð til. 28 voru teknir fyrir akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna og 35 fyrir hraðakstur. Þrjár líkamsárásir voru tilkynntar í umdæminu. Bjarga þurfti fólki úr sjó á tveimur stöðum á laugardag auk þess sem björgunarsveitarmenn þurftu á sunnudagsmorgun að hafa uppi á manni sem fór ölvaður í göngu og skilaði sér ekki til baka.

Aðra sögu er að segja af Akureyri. Þar var einstaklega rólegt af Verslunarmannahelgi að vera að sögn lögreglu. Á Austurlandi var í ýmis horn að líta en ekkert alvarlegt kom upp á.

Á fjórða tug voru teknir undir áhrifum áfengis eða fíkniefna við akstur á höfuðborgarsvæðinu. Fjögur voru handtekin vegna líkamsárásar á Seltjarnarnesi.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV