Málflutningur hjá Annþóri og Berki á sunnudag

29.01.2016 - 22:29
Annþór Kristján Karlsson í héraðsdómi Suðurlands, jan. 2016
 Mynd: RÚV
Málflutningur verður í máli Annþórs Karlssonar og Barkar Birgissonar í Héraðsdómi Suðurlands á sunnudag. Annar dagur aðalmeðferð í málinu var í dag - þá greindi réttarmeinafræðinga á um dánarorsök fangans sem lést á Litla Hrauni árið 2012 en Annþóri og Berki er gefið að sök að hafa veitt honum áverka sem leiddu til dauða hans. Sálfræðingur sagði tvímenningana hafa ógnað fanganum.

Sigurður Hólm Sigurðsson lést daginn eftir komu á Litla-Hraun árið 2012. Samkvæmt myndbandsupptökum sáust Annþór Karlsson og Börkur Birgisson eiga samskipti við hann og meðal annars fara inn í klefa hans skömmu áður en hann lést.

Báðir neita þeir sök og segjast þvert á móti hafa liðsinnt Sigurði sem var orðinn veikur.

Ýmsir sérfræðingar á sviði réttarmeinafræði og sálfræði gáfu skýrslur í dag. Þýskur réttarmeinafræðingur sem krufði Sigurð sagði dánarorsökina hafa verið rifið milta og miltisæð sem hlotist hefði af höggi. Blætt hafi inn í kviðarholið og við krufningu kom í ljós að tveir lítrar af blóði voru í kviðarholinu.

Þóra Stephensen réttarmeinafræðingur var fengin til að leggja mat á þá skýrslu og komst hún að sömu niðurstöðu. Norskur yfirlæknir og prófessor í réttarlæknisfræði, sem fenginn var sem yfirmatsmaður taldi ólíklegt að miltað hefði rofnað vegna höggs því þá hefðu einhverjir ytri áverkar átt að vera á líkinu. Mögulega hafi þetta hlotist af hjartahnoði við endurlífgun á Sigurði.

Einnig var fjallað um sálfræðiskýrslu Gísla Guðjónssonar og Jóns Friðriks Sigurðssonar þar sem þeir lögðu mat á atferli tvímenninganna úr eftirlitsmyndavélum þegar þeir áttu samskipti við Sigurð.

David Cook, breskur yfirmatsmaður, sagði fyrir dómi í gær að skýrslan væri ekki marktæk, unnið væri úr of takmörkuðu efni og ekki nógu vísindalega. Gísli sagði þetta mat Cooks rangt. Hann og Jón Friðrik væru reynslumiklir á þessu sviði og hegðun Annþórs og Barkar gagnvart Sigurði hafi verið ógnandi. Verjendur tvímenninganna gagnrýndu vitnisburð Gísla harðlega.