Mál lögreglufulltrúa komið til saksóknara

12.01.2016 - 13:39
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink  -  Ruv.is
Mál lögreglufulltrúa hjá fíkniefnadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu er komið til embætti héraðssaksóknara þar sem það verður tekið til formlegrar rannsóknar. Ólafur Þór Hauksson, héraðssaksóknari, staðfesti þetta í samtali við fréttastofu. Hann vildi ekki tjá sig hvers eðlis rannsóknin væri né hvort lögreglumanninum hefði verið tilkynnt um rannsóknina formlega.

Eins og fram hefur komið í fréttum óskaði maðurinn sjálfur eftir því að störf hans fyrir fíkniefnadeild lögreglunnar yrðu skoðuð eftir að ásakanir um spillingu komu fram. Fréttastofa hefur meðal annars heimildir fyrir því að það hafi verið gert bréflega - meðal annars við Friðrik Smára Björgvinsson, yfirlögregluþjón.

Friðrik Smári sagði í skriflegu svari við fyrirspurn fréttastofu: „Get því miður ekki tjáð mig um þetta að svo stöddu.“

Ólafur Þór vildi ekki staðfesta hvort rannsóknin væri að frumkvæði lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu eða lögreglufulltrúans sjálfs. „Við fengum þetta bara frá ríkissaksóknara í gær,“ segir Ólafur Þór en vildi að öðru leyti ekki tjá sig um málið. Fréttastofa hefur sent Sigríði Friðjónsdóttur, ríkissaksóknara, fyrirspurn um málið.

Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglstjóri á höfuðborgarsvæðinu, hefur ekki svarað fyrirspurnum fréttastofu um þetta mál lögreglufulltrúans.

Lögreglufulltrúinn hefur meðal annars verið sagður hafa stjórnað tálbeituaðgerð við Hótel Frón í apríl 2014 sem fór út um þúfur. Hollensk kona var dæmd í ellefu ára fangelsi í tengslum við það mál og þótti sá dómur orka tvímælis þar sem konan hefði aðstoðað lögreglu í aðgerðinni.

Samkvæmt heimildum fréttastofu voru það mistök lögreglumanns úr annarri lögreglusveit sem urðu þess valdandi að aðgerðin misheppnaðist. Lögreglumaðurinn misskildi skipun sem gefin var í gegnum talstöð og handtók íslenskan mann of snemma. Hann hlaut síðar 5 ára fangelsi.

Lögreglustjóri hefur ekki svarað fyrirspurnum fréttastofu um umrædda tálbeituaðgerð og hvað fór þar úrskeiðis.

 

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV