Lögregla varar við vingjarnlegum sölumönnum

17.07.2017 - 18:04
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu varar við vingjarnlegum, erlendum sölumönnum sem bjóða vandaðan fatnað til sölu á grunsamlega hagstæðu verði. Mönnunum virðist ítrekað takast að pranga drasli inn á fólk undir þeim formerkjum að það sé að kaupa gæðavöru.

Fyrr í dag leitaði maður til lögreglu og sagði farir sínar ekki sléttar eftir viðskipti við tvo erlenda menn, en þeir seldu honum nokkra jakka eftir að hafa tekið hann fyrst tali á bifreiðastæði við banka í austurborginni. Grunur leikur á að flíkurnar sem maðurinn keypti séu ekki í þeim gæðaflokki sem um var talað.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem mál af þessum toga ratar inn á borð lögreglu. Í síðasta mánuði varaði lögreglan einnig við vingjarnlegum, erlendum sölumönnum, sem trúlega eru sömu mennirnir. Þá hafði maður keypt af þeim gæðajakka, en síðar kom á daginn að þetta var enginn gæðajakki og því hafði viðkomandi ekki gert kostakaup, heldur þvert á móti.

Mennirnir eru jakkafataklæddir og sagðir einkar tunguliprir. Þeir virðast sitja um fólk á bílastæðum við stórverslanir á höfuðborgarsvæðinu. Lögregla biður fólk að hafa samband ef það sér til umræddra sölumanna, sem sagðir eru vera á ljósgrárri bifreið.

Mennirnir eru grunaðir um fjársvik. „Ef fólk selur einhverja vöru sem reynist svo ekki vera það sem um var rætt, þá eru það fjársvik," segir Gunnar Rúnar Sveinbjörnsson, upplýsingafulltrúi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. 

Mynd með færslu
Birkir Blær Ingólfsson
Fréttastofa RÚV