Lög sett á flugmannaverkfall  • Prenta
  • Senda frétt

Lög á verkfall flugmanna Icelandair voru samþykkt með 32 atkvæðum gegn fjórtán á Alþingi laust fyrir klukkan hálf þrjú. Samkvæmt því verða Félag íslenskra atvinnuflugmanna og Icelandair að ná samningum fyrir 1. júní, annars verður kjaradeila þeirra sett í gerðardóm.

Þingmenn deildu um lagasetninguna og fóru stjórnarandstæðingar hörðum orðum um hana. Stjórnarliðar sögðu lagasetninguna vera neyðarúrræði.

„Hver er ábyrgð fyrirtækisins sem er leiðandi fyrirtæki sem skilar 27 prósent aukningu í hagnaði á milli ára í stærstu útflutningsgrein landsins?" spurði Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingar. „Á þetta fyrirtæki von á því að það þurfi ekki að semja við starfsfólkið sitt því hér á Alþingi ætli þingmenn að taka þann rétt af starfsfólki fyrirtækja?"

Höskuldur Þórhallsson, framsögumaður meirihlutans, sagðist taka undir með öllum þeim, í meirihluta og minnihluta, sem segðu að meta þyrfti hvert tilvik sjálfstætt. Hann sagði þetta mikilvægt og vísaði á bug orðum þingmanna Samfylkingarinnar um að þessi lagasetning kallaði á frekari inngrip Alþingis í kjaradeilum. Höskuldur sagði að ríkissáttasemjari hefði reynt að miðla málum en flugmenn hafnað sáttaboði og slitið viðræðum. „Það hefði engu breytt þó miðlunartillaga hefði verið lögð fram í kjölfarið. Henni hefði líka verið hafnað."

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra tók undir með þeim sem sögðu að lagasetning á verkfall ætti að vera neyðarúrræði. Hún sagði að lagasetningin væri ekki til marks um stefnu stjórnarinnar heldur viðbrögð við stöðunni sem komin væri upp.

Birgitta Jónsdóttir, kapteinn Pírata, kvaðst vona að ríkisstjórnin myndi ekki setja Íslandsmet í inngripum á verkfallsaðgerðir. Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, sagði að lagasetningin væri ofbeldi og að nauðsynlegt væri að fullreyna allar leiðir til að ná samningum áður en lög væru sett á kjaradeilur, það hefði ekki verið gert núna.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sagði að tjónið af völdum flugmannaverkfalls væri svo mikið að ekki væri hægt að sitja hjá án þess að grípa til aðgerða.

„Verkfallsrétturinn eins og farið er að nota hann síðustu áratugi gengur út á það að valda þriðja aðila eins miklu tjóni og hægt er," sagði Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokks. Hann kvað launafólk leggja minna upp úr að beina aðgerðum sínum gegn atvinnurekendum en að láta þær bitna á þriðja aðila, almenningi, og mynda þannig þrýsting í baráttu sinni. Hann vísaði til þess að grunnskólakennarar væru í verkfalli í dag og kvað það ekki hafa minni áhrif en verkfall flugmanna þó það kæmi ekki fram fyrr en eftir einhverja áratugi.

Ertu með athugasemd vegna fréttarinnar? Sendu á frettir@ruv.is

Tilkynna um bilaða upptöku