Ljósmæður hætta verði ekki samið innan viku

03.02.2016 - 22:19
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ljósmæður sem sinna sængurkonum í verktöku ákváðu á fundi í kvöld að bíða með frekari aðgerðir fram á mánudag eftir góðan fund með heilbrigðisráðherra í morgun. Á mánudagskvöld ætla þær að hætta að sinna sængurkonum takist ekki að semja við Sjúkratryggingar.

Funduðu í kvöld

Ljósmæður sem sinna sængurkonum í heimaþjónustu sætta sig ekki við eins prósents hækkun á verktakagreiðslu eins og þeim stóð til boða. Hluti þeirra kom saman í húsnæði BHM í kvöld en samtals eru þær 117 á samningi við Sjúkratryggingar. Þær fá fjögur þúsund krónur á klukkustund að meðtöldum launatengdum gjöldum og akstri. 

Vænta góðs af ráðherra

Bergrún Svava Jónsdóttir ljósmóðir átti fund með Kristjáni Þór Júlíussyni heilbrigðisráðherra og fleirum í morgun. Hún segir að fundurinn hafi verið mjög góður: „Við áttum mjög góðan fund í dag með ráðherra, sem hlustaði vel á okkar rök. Og hann talaði um að ganga í málið, eins og hann sagði, á næstu dögum. Þannig að við vorum bara mjög jákvæðar eftir þann fund þannig að við vonumst til þess að heyra frá honum á næstu dögum með jákvæð viðbrögð.“
Katrín Sif Sigurgeirsdóttir ljósmóðir segir að einhugur hafi verið með framhaldið á fundinum í kvöld: „Þá munum við leggja niður störf alla vega þær sem eru hérna á fundinum og vonandi allar samstarfssystur okkar á Íslandi að leggja bara niður störf frá og með mánudagskvöld ef að það verður ekki samið við okkur. “
Hætti ljósmæður heimaþjónustu þá myndast stífla á fæðingardeild Landspítalans því þá þurfa sængurkonur að liggja mun lengur á spítalanum