Liverpool og City berjast um bikarinn

28.02.2016 - 14:46
epa05106834 Liverpool's manager Juergen Klopp reacts during the English Premier League soccer match between Liverpool and Manchester United at Anfield, Liverpool, Britain, 17 January 2016.  EPA/PETER POWELL EDITORIAL USE ONLY. No use with
Jurgen Klopp horfði á sína menn tapa í dag.  Mynd: EPA
Úrslitaleikur enska deildarbikarsins fer fram í 56. skipti í dag þegar Manchester City og Liverpool mætast á Wembley í Lundúnum.

Ekkert lið hefur unnið bikarinn oftar en Liverpool, eða átta sinnum. Síðast vann liðið deildarbikarinn árið 2012. Manchester City hefur þrisvar sinnum orðið deildarbikarmeistari, síðast fyrir tveimur árum. 

Jurgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, getur dag unnið sinn fyrsta titil með Liverpool, en hann tók við liðinu síðasta haust. Manuel Pellegrini, knattspyrnustjóri City, mun vafalítið tefla fram sterku liði í dag. Fyrir viku síðan hvíldi hann lykilmenn í bikarleik gegn Chelsea til að búa liðið betur undir leikinn í dag, og leik gegn Dinamo Kiev í Meistaradeild Evrópu síðasta miðvikudag. 

Adam Lallana, Joe Allen og Martin Skrtel eru allir byrjaðir að æfa á ný hjá Liverpool eftir meiðsli, en ólíklegt þykir að þeir spili í dag. Öðru máli gegnir um króatíska varnarjaxlinn Dejan Lovren, sem hefur náð fullri heilsu eftir veikindi. 

Stuðningsmenn Liverpool þyrstir í titil, en fjögur ár eru síðan liðið vann bikar síðast.
 

Wilfred Bony, Jesus Navas og Eliaquim Mangala gætu allir snúið aftur í lið City í dag eftir að hafa verið frá vegna meiðsla. 

Enski deildaribikarinn er stundum nefndur þriðji bikarinn á Englandi, en hann þykir síðri en bæði enski bikarinn og sjálfur Englandsmeistaratitillinn. Enski deildarbikarinn hefur þó verið hafinn til vegs og virðingar síðustu ár - en sigur í keppninni veitir þátttökurétt í Evrópudeildinni. 

Flautað verður til leiks á Wembley klukkan 16.30.

 

Mynd með færslu
Guðmundur Björn Þorbjörnsson
Fréttastofa RÚV