Lítið verið rætt hvernig bankakerfi við viljum

15.01.2016 - 10:56
"Við erum inni í þessari litlu skel og getum ekki búið til það efnahagsumhverfi sem við viljum lifa í árið 2016 - og það er út af íslensku krónunni",sagði Valgerður Bjarnadóttir á Morgunvaktinni á Rás 1. Hún vill að ríkið eigi enn um sinn meirihluta í einum banka - Landsbankanum, og áður en seldur verði hlutur þurfi að liggja fyrir hvað verður um Íslandsbanka. Vilhjálmur Bjarnason segir engan erlendan banka hafa sýnt raunverulegan áhuga á að koma hingað. Hann vill ekki að ríkið eigi banka.

Alþingismennirnir, Valgerður Bjarnadóttir, Samfylkingunni, og Vilhjálmur Bjarnason, Shjálfstæðisflokki, skiptust á skoðununum um stöðu og framtíð bankakerfisins á Morgunvaktinni og nýlega stöðuskýrslu Bankasýslu ríkisins um sölu á hlut ríkisins í Landsbankanum. Bæði eiga þau sæti í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis. "Ég verð að viðurkenna það að Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki rætt framtíðarskipanina í grundvallaratriðum, ekki frekar en aðrir flokkar", sagði Vilhjálmur um spurninguna hvernig bankakerfi við viljum á Íslandi. Valgerður segir að engar raunverulegar breytingar verði á meðan við höldum okkur við íslensku krónuna. Hún segir lausninga felast í aðild að Evrópusambandinu og að taka þar með upp evruna. Þangað til hafi ríkið hlutverk á þessum litla íslenska markaði. Í þessu lokaða samfélagi fáum við ekki raunverulega samkeppni. Hún sagðist velta fyrir sér hvort við gætum endurvakið sparisjóðina til að þjóna einstaklingum og litlum fyrirtækjum. Vilhjálmur minnir á að lífeyrissjóðirnir séu hluti af þessu umhverfi, láni einstaklingum og keppi þar með við bankana. 

Mynd með færslu
Óðinn Jónsson
dagskrárgerðarmaður
Morgunvaktin
Þessi þáttur er í hlaðvarpi