Lifandi útisafn fagnar 60 ára afmæli

11.08.2017 - 11:06
„Þessar miklu samfélagsbreytingar verða eftir stríð – þegar fólk flytur á mölina og gamla sveitasamfélagið er á fallanda fæti – þá vildu menn varðveita hluta af því og hafa til sýnis, yngri kynslóðir hefðu tök á að kynnast lífinu áður fyrr. Það var grunnhugmyndin,“ sagði Guðbrandur Benediktsson, safnstjóri Borgarsögusafns, um upphaf Árbæjarsafns, sem fagnar um helgina 60 ára afmæli.

Árbærinn gamli varð kjarni þessa útisafns við Elliðaárdal og smám saman voru flutt þangað hús, sem þurftu að víkja vegna nýframkvæmda í miðborginni. Árbæjar er fyrst getið í heimildum frá 15.öld þegar Ólöf ríka kemur þar við, en uppgröftur við bæjarhúsið hefur leitt í ljós minjar um búsetu frá eldri tíma – hugsanlega til fyrstu alda Íslandsbyggðar. „Maður veltir fyrir sér hversu fljótt byggðin hefur dreifst út frá Reykjavík. Úthverfin eru ævaforn, getur maður sagt. Í öllu falli eru rætur Árbæjar mjög gamlar,“ sagði Guðbrandur Benediktsson á Morgunvaktinni.

Hann segir að Árbæjarsafn gegni mikilvægu hlutverki vegna rannsókna og varðveislu en ekki sé líklegt að mörg hús bættust við á safnsvæðinu. „Það er ekki keppikefli Árbæjarsafns eða borgaryfirvalda að flytja hús úr miðbænum. Nú eru viðhorf til húsverndar önnur og ég vil meina að hugmyndafræðin, og virðingin sem borin er fyrir gömlum húsum t.a.m. á Árbæjarsafni hafi orðið til að menn líta gömlum húsum öðrum augum. Þau eiga að vera á sínum stað, vel við haldið, og hafa hlutverk þar.“

Fjölbreytt dagskrá verður á Árbæjarsafni alla helgina í tilefni 60 ára afmælisins og aðgangur er ókeypis. 

Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Jónsson
Mynd með færslu
Óðinn Jónsson
dagskrárgerðarmaður
Morgunvaktin
Þessi þáttur er í hlaðvarpi