Landvernd biður ríkið um að kaupa Jökulsárlón

14.04.2016 - 12:24
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Rúnar Snær Reynisson  -  Jökulsárlón
Sveitarfélagið Hornafjörður, Landvernd og þingmenn hafa áhyggjur af því hvað verði um Jökulsárlón ef jörðin Fell og austurbakki lónsins verða seld. Landvernd vill að ríkið kaupi jörðina. Sýslumaður ákvað í morgun að hún verði ekki seld á uppboði við hamarhögg heldur sett í almennt söluferli, mögulega í gegum fasteignasölu.

Uppboðsþolandi mótmælti

Svokölluð byrjun uppboðs á jörðinni Fell við Jökulsárlón fór fram hjá Sýslumanninum á Suðurlandi í morgun. Þar tilkynnti sýslumaður ákvörðun sína um að setja jörðina í sölu á almennum markaði frekar en í uppboðsferli. Einn af eigendum jarðarinnar, sem hefði orðið uppboðsþolandi, fór fram á almennt söluferli og varð sýslumaður við því. Með þessu tókst að vinna tíma því annars hefði þurft að selja eignina hæstbjóðanda innan fjögurra vikna.

Lónið verði hluti af þjóðgarði

Mikill áhugi er á sölunni og miklir hagsmunir í húfi enda er Jökulsárlón ein helsta náttúruperla landsins og samkvæmt Tripadvisor annar vinsælasti ferðamannastaðurinn á eftir Gullfossi. Sveitarfélagið Hornafjörður og Landvernd hafa skorað á ríkið að grípa í taumana. Landvernd bað Alþingi og ríkisstjórn í morgun um að kaupa jörðina Fell og þar með austurbakka Jökulsárlóns og vernda lónið ásamt Breiðamerkursandi sem hluta af Vatnajökulsþjóðgarði.

Biðja um nefndarfund á Alþingi

Tveir þingmenn Framsóknarflokks, Ásmundur Einar Daðason og Haraldur Einarsson, óskuðu í morgun eftir sameiginlegum fundi fjárlaganefndar og umhverfisnefndar Alþingis með hagmunaaðilum um málið. Ásmundur Einar segir í samtali við fréttastofu að þegar selja eigi annan vinsælasta ferðamannastaðinn í stærstu atvinnugreininni verði löggjafinn að meta hvort grípa skuli inn í.

Kvöð fylgir jörðinni

Lögmaður Einar Björns Einarssonar sem á stóran hlut í jörðinni lét bók sérstaklega um gildi leigusamnings hans um rétt á aðstöðu fyrir siglingar á lóninu. Samningurinn  gildir út árið 2024 og hefur áhrif á virði jarðarinnar. Eftir þann tíma hefur Einar Björn forleigurétt á aðstöðu við lónið. Nýr eigandi þyrfti því sjálfur að nýta aðstöðuna vildi hann ekki leigja Einari Birni hana áfram.

Málið verður næst tekið fyrir hjá sýslumanni 25. apríl og þá verður tilkynnt nánar um söluferlið. Mögulega verður fasteignasölu falið að undirbúa söluna en það á eftir að koma í ljós.

Tilkynning Landverndar í heild:

 

„Landvernd skorar á Alþingi og ríkisstjórn að festa kaup á jörðinni Felli í Suðursveit sem á austurbakka Jökulsárlóns og vernda það ásamt Breiðamerkursandi í heild sinni sem hluta af Vatnajökulsþjóðgarði. Þá skorar Landvernd á stjórnvöld að veita auknu fjármagni í rannsóknir á einstöku lífríki Jökulsárlóns og í náttúruvernd á svæðinu.

Aðalfundur Landverndar árið 2015 ályktaði og skoraði á stjórnvöld að friðlýsa Jökulsárlón og Breiðamerkursand sem hluta af Vatnajökulsþjóðgarði. Vesturbakki Jökulsárlóns er þjóðlenda í eigu ríkisins en austurbakkinn tilheyrir jörðinni Felli í Suðursveit, sem er í eigu yfir 30 aðila. Auglýst hefur verið uppboð á jörðinni í dag, fimmtudag.

Jökulsárlón hefur verið á náttúruminjaskrá síðan 1974. Það er einstakt sökum legu sinnar nálægt sjó og hinna tilkomumiklu ísjaka sem liggja iðulega á lóninu og reka til sjávar við þjóðveginn. Lífríki þess er hins vegar lítið rannsakað, en ólíkt öðrum íslenskum jökullónum er Jökulsárlón kvikt af lífi, enda nálægð við hafið mikil. Þá eru Breiðamerkursandur og Jökulsárlón afar hentugur staður til að rannsaka jökla og jöklasögu.

Enginn landeigenda á Felli byggir afkomu sína á búsetu á jörðinni og engin hefðbundin landnýting er til staðar, enda að mestu sandar og jökulgarðar. Jökulsárlón er hinsvegar einn fjölfarnasti ferðamannastaður á Íslandi og þangað koma yfir 40% þeirra erlendu ferðamanna sem heimsækja landið. Þar er rekin öflug ferðaþjónusta með hinar rómuðu bátasiglingar. Landvernd telur að best færi á því að eignarhald jarðarinnar væri hjá hinu opinbera og tekur þar með undir hugmyndir bæjarstjóra Sveitarfélagsins Hornafjarðar.

Ef Jökulsárlón og Breiðamerkursandur væri í eigu þjóðarinnar og hluti af þjóðgarði þá væru komnar forsendur til þess að hafa þar landvörslu á heilsársgrundvelli, vernda og vakta svæðið og jafnframt fræða og mennta gesti um einstaka náttúru og lífríki svæðisins.“