Kvörtunum vegna lögreglustjóra fjölgar

16.01.2016 - 12:42
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Framkvæmdastjórn Landssambands lögreglumanna hefur óskað eftir fundi með Sigríði Björk Guðjónsdóttur, lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins, til að ræða óánægju lögreglumanna með starfshætti hennar. Kvörtunum til landssambandsins vegna vinnubragða lögreglustjórans fjölgar.

Fréttastofa greindi frá því á þriðjudaginn að ólga innan embættis lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins hafi ratað inn á borð Ólafar Nordal innanríkisráðherra, og að fjórtán lögreglumenn, af báðum kynjum, hafi leitað til Landssambands lögreglumanna til að kvarta undan starfsháttum Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur lögreglustjóra.

 

Hafa óskað eftir fundi með lögreglustjóra

Snorri Magnússon, formaður landssambandsins, sagði, í fréttum RÚV, að kvartanirnar lúti meðal annars að vinnubrögðum og framkomu lögreglustjórans og að hann myndi leggja það til við stjórn landssambandsins að leitað verði eftir íhlutun innanríkisráðherra. Stjórnin fundaði um málið á miðvikudag og þar var ákveðið að fela framkvæmdastjórn landssambandsins að óska eftir fundi með lögreglustjóra til að ræða ástandið innan lögreglu höfuðborgarsvæðisins, áður en lengra yrði haldið.

„Við erum sem sagt að reyna að finna hentugan tíma í það. Við erum búin að setja okkur í samband við hana með að finna fundartíma, en á stórum heimilum er oft erfitt að finna tíma sem að hentar öllum,“ segir Snorri Magnússon í samtali við fréttastofu.

Sautján lögreglumenn hafa leitað til landssambandsins

Hann segir að Sigríður Björk hafi tekið umleitan landssambandsins vel og á von á að fundurinn verði haldinn í næstu viku. Hann segir að þrír lögreglumenn til viðbótar hafi leitað til landssambandsins vegna starfshátta lögreglustjóra frá því á þriðjudaginn. Því séu þeir núna orðnir sautján talsins.

„Við munum fara bara yfir þessar athugasemdir eins og þær hafa komið inn til okkar og skýra frá þeim hvernig þær líta út án þess að nafngreina þá sem þar liggja að baki. Þeir eiga það allir sammerkt, þessir lögreglumenn, að þeir vilja ekki að nafn þeirra komi fram og hafa þess vegna leitað til okkar með þessar umkvartanir.“

Óviðunandi ástand innan lögreglunnar

Þá má geta þess að Aldís Hilmarsdóttir, yfirmaður fíkniefnadeildar lögreglu höfuðborgarsvæðsins, átti fund með Innanríkisráðherra í gær. Aldís óskaði sjálf eftir fundinum til að ræða samskipti sín við Sigríði Björk.

Formaður Landssambands lögreglumanna segir ástandið innan lögreglu höfuðborgarsvæðsins óviðunandi miðað við þær umkvartanir sem landssambandinu hafa borist. „Miðað við þær umkvartanir sem eru að berast okkur, því verður ekki neitað,“ segir Snorri.