Kvikmyndatónlist á Stockfish film festival

18.02.2016 - 15:59
Í dag hefst kvikmyndahátíðin Stockfish film festival í Bíó Paradís og einn viðburðurinn á hátíðinni eru pallborðsumræður um kvikmyndatónlist og innsetningu hennar.

Þau Ólafur Arnalds tónskáld og Guðrún Björg Bjarnadóttir framkvæmdarstýra STEF komu í Víðsjá og sögðu okkur frá þessum spennandi umræðum en við plötuðum þau líka í smá spurningakeppni þar sem tónlist úr kvikmyndum og sjónvarpsþáttum kom við sögu. 

Pallborðsumræðurnar eru á laugardaginn í Bíó Paradís og hefst fyrri panell kl: 13:00 og þá er til umræðu innsetning tónlistar í kvikmyndum og sjónvarpi.
Markaðsumhverfi tónlistar hefur breyst mikið á undanförnum árum og hafa tónlistarmenn í auknum mæli hafið samtarf við tónlistarforleggjara (publishers) og tónlistarráðgjafa (music supervisors) til að bæta við nýju tekjustreymi. Kvikmyndagerðarmenn vilja vanda val á tónlist í kvikmyndum sínum og fara ýmsar leiðir til að finna þá tónlist sem hentar verkefnum þeirra best. Innlendir og erlendir sérfræðingar ræða þetta ferli út frá sjónarmiði tónlistarmanna, -forleggjara og -ráðgjafa.

Þátttakendur í þessum panel eru:
Barði Jóhannsson (tónlistarmaður)
Edna Pletchetero (umsjónarmaður synchronization fyrir Sigur Rós)
Iain Cooke (music supervisor fyrir kvikmyndir)
Sarah Bridge (music supervisor fyrir kvikmyndir)
Stjórnandi er Guðrún Björk Bjarnadóttir hjá STEF

Klukkan 14:30 tekur nýtt fólk sér stöðu í panel og ræðir tónlistarsköpun fyrir kvikmyndir og sjónvarp. Nokkur af helstu kvikmyndatónskáldum Íslands munu koma fram á Stockfish hátíðinni ár og taka þátt í pallborðsumræðum um mikilvægi tónsköpunar fyrir kvikmyndir. Áhorfendur fræðast um hvernig samstarf tónskálda, leikstjóra og framleiðenda gengur fyrir sig og rædd verða þau vandamál og tækifæri sem staðið er frammi fyrir í tónsköpunarferlinu.

Þátttakendur í panel eru:

Jóhann Jóhannsson (tónskáld)
Hilmar Örn Hilmarsson (tónskáld) 
Ólafur Arnalds (tónskáld)
Biggi Hilmars (tónskáld)
Stjórnandi er Louise Johansen (dagskrárgerðarkona hjá CPH PIX)

Klukkan 21:00 á laugardagskvöldið verður tónlistarpartý á Hlemmur Square þar sem hljómsveitin Ceasetone mun spila - þar er einnig frítt inn og að sjálfsögðu allir velkomnir. 

Mynd með færslu
Sigyn Blöndal
dagskrárgerðarmaður
Víðsjá
Þessi þáttur er í hlaðvarpi