Komnir á slóð frönsku stúlkunnar

13.07.2017 - 09:41
Mynd með færslu
 Mynd: Lögreglan á Suðurnesjum
Lögreglan á Suðurnesjum er komin á slóð Louise Soreda, frönsku stúlkunnar sem lýst var eftir í gær. Vitað er að Louise dvaldi tvær nætur á hóteli í Reykjavík, en hún sést á myndum öryggismyndavélar hótelsins ásamt karlmanni.

Talið er að Louise hafi haldið ferð sinni áfram með manninum. Líkt og Louise er hann búinn til útivistar, en Louise var klædd í bláar gallabuxur, brúna fjallgönguskó og hvíta peysu, síðast þegar sást til hennar. Hún hafði meðferðis stóran rauðan bakpoka ásamt upprúllaðri ljósgrárri dýnu.

Ekki hefur tekist að rekja síma Louise, þar sem slökkt er á honum. Jón Halldór Sigurðsson, rannsóknarlögreglumaður á Suðurnesjum, segir að fjölmargar vísbendingar hafi borist til lögreglunnar frá því í gær. Lögreglan telur sig fljótlega fá staðfestingu á hvar á landinu parið er niður komið. Jón Halldór á ekki von á því að björgunarsveitarmenn verði sendir út til leitar.