Kínverjar vara Norður-Kóreumenn við

11.08.2017 - 12:39
epa05998786 An undated photo made available by the North Korean Central News Agency (KCNA), the state news agency of North Korea, shows the test-fire of a ballistic rocket equipped with precision guidance system, at an undisclosed location in North Korea
 Mynd: EPA  -  KCNA
Kínverjar myndu grípa til vopna, ákveði Bandaríkjamenn að ráðast gegn Norður Kóreu, en stjórnvöld í Pyongyang yrðu hinsvegar ein á báti, geri þau eldflaugaárás á herstöðvar Bandaríkjahers. Þessi skilaboð koma fram í kínverska dagblaðinu Global Times, sem litið er á sem málpípu stjórnvalda í Kína.

Í ritstjórnargrein í kínverska dagblaðinu Global Times í dag kemur fram að Kínverjar eigi að gera bæði Bandaríkjamönnum og ráðamönnum í Norður Kóreu ljóst að þegar hagsmunir Kína séu í húfi, muni stjórnvöld þar bregðast ákveðið við.

Global Times er ekki opinbert málgagn kínverskra stjórnvalda, en þykir hins vegar endurspegla stefnu stjórnvalda.

Kínverjar ættu að koma því skýrt á framfæri, segir í greininni, að ef eldflaugum verði skotið frá Norður-Kóreu að bandarísku yfirráðasvæði, og Bandaríkjamenn svari fyrir sig, þá muni Kína ekki taka afstöðu. En ef Bandaríkjamenn og stjórnvöld í Suður-Kóreu ráðist á Norður Kóreu í þeim tilgangi að kollvarpa stjórnvöldum þar og koma fram pólitískum breytingum á Kóreuskaganum, þá myndi Kína koma í veg fyrir það, segir í grein Global Times.