Keflavíkurkonur einar á toppnum

27.11.2013 - 22:22
Mynd með færslu
Keflavík er eitt í efsta sæti úrvalsdeildar kvenna í körfuknattleik eftir leiki tólftu umferðarinnar í kvöld en Keflavík og Snæfell voru fyrir kvöldið jöfn á toppnum.

Keflavík vann öruggan sigur á nágrönnum sínum úr Njarðvík 70-48. Bryndís Guðmundsdóttir skoraði 14 stig fyrir Keflavík og tók 11 fráköst og Sara Rún Hinriksdóttir var einnig með 14 stig fyrir liðið og tók 4 fráköst en Jasmine Beverly gerði 21 stig fyrir Njarðvík og tók 11 fráköst.

Á sama tíma hafði KR betur gegn Snæfelli 64-60 í Stykkishólmi.

Hamar sigraði heimakonur í Grindavík 73-57.  Lauren Oosdyke var atkvæðamest í liði Grindavíkur með 25 stig og 21 fráköst en Marín Laufey Davíðsdóttir skoraði 20 stig fyrir Hamar og tók 18 fráköst og Di'Amber Johnson var með 20 stig, 6 fráköst og 8 stoðsendingar.

Haukar unnu svo Val 63-51 á Ásvöllum. Lele Hardy var með 18 stig, 22 fráköst og 9 stoðsendingar fyrir Hauka og Gunnhildur Gunnarsdóttir 15 stig og 5 fráköst en Kristrún Sigurjónsdóttir gerði 17 stig fyrir Val og Jaleesa Butler skoraði 10 stig og tók 14 fráköst.

Keflavík er með 20 stig í toppsæti deildarinnar en Snæfell kemur þar á eftir með 18 stig og Haukar hafa 16 stig, Hamar, Grindavík og Valur hafa öll 10 stig og KR 8 stig en Njarðvík er á botninum með 4 stig.  

elinhg@ruv.is