Kalt og norðlægar áttir næstu daga

29.01.2016 - 07:04
Mynd með færslu
 Mynd: Einar Rafnsson  -  RÚV
Það verður kalt í veðri á landinu öllu næstu daga og norðlægar áttir samkvæmt spá Veðurstofu Íslands. Í dag verður norðaustanátt og algengur vindhraði á bilinu 10-15 metrar á sekúndu. Bætir nokkuð í vind þegar líður á daginn.

Samkvæmt pistli frá Veðurstofunni ætti Esjan að skýla höfuðborgarsvæðinu fyrir norðaustanáttinni fram eftir degi. Vindur gæti þó aukist seinni partinn og þá sérstaklega í Vesturbænum.

Á Norðausturlandi bætir einnig í vind þegar líður á daginn. Búast má við auknum éljagangi á Norðurlandi þegar líður á en annars verður úrkomulítið. Áfram kalt næstu daga líkt og fyrr sagði og snjókoma fyrir norðan og austan en úrkomulítið um landið sunnanvert.

Samkvæmt pistli Veðurstofunnar er mikill lægðarbakki um 100 kílómetra suður af Reykjanesi. Veðurspá aðfaranótt fimmtudagsgerði ráð fyrir því að bakkinn næði inn yfir landið. Honum hefði fylgt mikil snjókoma, meðal annars á höfuðborgarsvæðinu. Svo illa gekk að herma lægðina inn í spálíkön að sólarhringsspá skeikaði um 100 kílómetra. Það sé áminning um að þrátt fyrir miklar framfarir sé oft erfitt að spá fyrir um veður með vissu. 

Mynd með færslu
Ásgeir Jónsson
Fréttastofa RÚV