Íran brýnir Bandaríkin til að standa við sitt

21.04.2017 - 02:13
epa05914593 Iranian Foreign Minister Mohammad Javad Zarif attends a press conference with Kyrgyzstan Foreign Minister Erlan Abdyldaev (not pictured) following their talks in Bishkek, Kyrgyzstan, 19 April 2017. Zarifi is on an official visit to Kyrgyzstan.
Javad Zarif, utanríkisráðherra Írans. Myndin er tekin í Bishkek, höfuðborg Kirgistans, þar sem Zarif hefur verið í opinberri heimsókn síðustu daga.  Mynd: EPA
Mohammad Javad Zarif, utanríkisráðherra Írans, brýnir Bandaríkjastjórn til að standa við sínar eigin skuldbindingar í tengslum við kjarnorkusamninginn frá 2015 fremur en að slengja fram tilhæfulausum ásökunum í garð Írana. „Margtuggnar ásakanir Bandaríkjanna duga ekki til að breiða yfir viðurkenningu þeirra á því, að Íran fari í einu og öllu að skilmálum [kjarnorkusamningsins], sem skyldar Bandaríkin til að snúa við blaðinu og standa við sínar eigin skuldbindingar," segir Zarif á Twitter.

Eru þetta fyrstu, opinberu viðbrögð ráðamanna í Teheran við harðri gagnrýni Rex Tillersons, starfsbróður Zarifs í Washington, á framgöngu Írana að undanförnu. Tillerson kynnti utanríkismálanefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings fyrirhugaða endurskoðun á höftum og refsiaðgerðum gagnvart Írönum á miðvikudag. Þeim var að miklu leyti aflétt, samkvæmt ákvæðum samningsins.

Trump-stjórnin hefur nú falið Þjóðaröryggsráðinu að stýra rannsókn á því, hvort sú ráðstöfun ógni mögulega þjóðaröryggi Bandaríkjanna og hvort æskilegt sé að taka þær að einhverju leyti upp að nýju. Stjórnvöld í Washington viðurkenna sem fyrr segir að Íranar hafi uppfyllt öll skilyrði kjarnorkusamningsins. Í skýrslu sinni til utanríkismálanefndar sagði Tillerson hins vegar nauðsynlegt að skoða málið í víðara samhengi og sakaði Írana um „geigvænlegar ögranir" og framgöngu sem grafi undan friði og stöðugleika í Austurlöndum nær.

Í gær, fimmtudag, hjó Donald Trump í sama knérunn og fullyrti að framkoma Írana væri „ekki í samræmi við anda kjarnorkusamningsins."

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV