Hvernig verður klassík klassík?

harpa
 · 
Haydn
 · 
klassík
 · 
Klassísk tónlist
 · 
klassísk tónlist
 · 
Monteverdi
 · 
Tónlist
 · 
Menningarefni
 · 
Víðsjá

Hvernig verður klassík klassík?

harpa
 · 
Haydn
 · 
klassík
 · 
Klassísk tónlist
 · 
klassísk tónlist
 · 
Monteverdi
 · 
Tónlist
 · 
Menningarefni
 · 
Víðsjá
Mynd með færslu
18.05.2017 - 12:44.Guðni Tómasson.Víðsjá
Í tilefni þess að 450 ár eru liðin frá fæðingu Claudio Monteverdi og tónleika Kammersveitar Vínar og Berlínar í Hörpu á föstudag velti Víðsjá aðeins fyrir sér fyrirbærinu sem stundum er kallað „klassísk tónlist.“

Monteverdi 450 ára

Þess er minnst víða um veröldina þessa dagana, bæði með umfjöllun og tónleikahaldi, að 450 ár eru frá því að ítalska tónskáldið Claudio Monteverdi fæddist suður á Ítalíu í borginni Cremona árið 1567. Hann var skírður 15. maí og var elstur fimm barna og líkast til alinn upp við forvitni og leit. Faðir hans var nefnilega læknir og apótekari og áhugamaður um skurðlækningar.

Leið tónskáldsins lá víða um Ítalíu. Hann hélt til Rómar til að vinna fyrir páfann en eitthvað fór það í vaskinn og það var í þjónustu furstans í Mantúa sem Claudio vann sín helstu tónlistarstórvirki á síðasta áratug 16. aldar og fram á annan áratug 17. aldar. Þá tók nýr aðalsmaður við af föður sínum, Fancesco Gonzaga tók við af Vincenzo og sonurinn hafði ekki smekk fyrir tónlist Monteverdis og honum var því sparkað frá hirðinni.

Borgin kom hlaupandi

Að ári liðnu tóku Feneyjar síðan við Monteverdi og þegar Francesco í Mantúa sá af sér og vildi fá Claudio aftur til borgarinnar afþakkaði hann pent og tók fram að alltaf þegar hann ætlaði sér að flytja hljóðfæra- eða kirkjutónlist sína í Feneyjum þá kæmi „öll borgin hlaupandi.“ Hann var semsagt stjarna í þessari sérstæðu borg í lóninu.

Í starfi sínu við Markúsarkirkjuna í Feneyjum setti Monteverdi ný viðmið í tónlistarlífinu og reif allt upp. Og hann er enn álítinn mestur tónskálda á þessum tíma, maður sem brúar bilið milli síðendurreisnarinnar ítölsku og barokksins sem lagði undir sig álfuna síðar meir.

Hvað ertu klassík? 

En hvað er klassísk - hvað er klassísk tónlist? Þetta er ágætis spurning þegar kemur að tónlist Monteverdis sem var einn af frumkvöðlum í þróun óperu formsins á fyrstu dögum þess listforms. Það er nefnilega ekkert endilega svo að Monteverdi hafi alltaf verið fyrirferðarmikill í vestrænni tónlist allar götur síðan að hann var stjarna í lifanda lífi. Og kannski má halda því fram að tónlist hans hafi aldrei verið jafn fyrirferðarmikil og einmitt nú, þó að tónskáldið hafi í Feneyjum 29. nóvember árið 1643, 76 ára að aldri.

400 ára ný klassík? 

Það má nefnilega líka halda því fram að þegar kemur að gamalli tónlist þá séum við að lifa eins konar endurreisnartímabil. Síðustu áratugir hafa verið mjög svo gjöfulir þegar kemur að tónlist fyrri alda og út um allan heim hafa sprottið upp tónlistarhópar sem taka Monteverdi og fjölmörg önnur tónskáld liðinna alda upp á arma sína. Ekkert annað tónskáld sem var á lífi á 16. öldinni er eins mikið fluttur og Claudio gamli.

Einn úr mikilli stjörnuþoku

Í nýjasta hefti tónlistartímaritsins Gramophone er fjallað um Claudio Monteverdi  og flutning á verkum hans. Þar bendir einn viðmælandi blaðsins á að þó ekki sé farið lengra en aftur á níunda áratug síðustu aldar er ljóst áð þá voru til dæmis engir ítalskir listamenn af alþjóðlegum gæðum sem einbeittu sér að flutningi á hinum ríkulega tónlistararfi heimalandsins sem 17. og 18. aldirnar skildu eftir sig. Um miðja öldina síðustu höfðu einstaka upptökur komið út af verkum Monteverdis og það var ekki fyrr en á áttunda áratugnum sem eitthvað fór að gerast fyrir alvöru og þá ekki á Ítalíu heldur í Englandi, Hollandi og Þýskalandi. Núna streyma fyrirtaks upptökur á markað með tónlist tónskáldsins sem aldrei fyrr.

Í umfjöllun Gramaophone bendir hljómsveitarstjórinn John Elliot Gardiner á það að 450 ára fæðingarafmæli Monteverdis ætti að reynast frábært tækifæri til að benda á það að hann sé aðeins einn af mikilli kynslóð vísindamanna, hugsuða og heimspekinga, tónlistar- og myndlistarmanna sem fæddust á sjöunda og áttunda áratug 16. aldar og breyttu heiminum og upplifun okkar af honum. Og Gardiner telur upp þennan gæðahóp: Galileo, Francis Bacon, Monteverdi, Caravaggio, Rubens og listinn er líklega lengri en þessi byrjun dugar ágætlega.

Alvöru klassík?

En aftur: hvað er klassík? Eiginleg klassísk tónlist er tónlist frá stuttu tímabili, eða um frá sirka 1730 til sirka 1820. Sú tónlist hefur heldur ekki farið varhluta af framförum í tónlistartækni og spilamennsku á síðustu áratugum. Snerpa og léttleiki í flutningi eru lykilatriði í þeirri tónlist um leið og það er líka mikilvægt að missa ekki tökin og láta klárinn hlaupa um of á skeið.

Risar úr tónlistarsögunni sem kenndir eru við Vínarklassík, Haydn, Mozart og Beethoven rísa eins og tindar upp úr þessu tímabili innan um fjölmörg önnur tónskáld. Það var dáldið eins og finna ætti einn samræmdan stíl í tónlist Evrópu á tímabili, eða allt þar til Beethoven komst í byltingarham og setti allt af stað, blés rómantískum anda í tónlistina, svo eftir var tekið.

Góðir gestir í Reykjavík

Það gefst ágætt tækifæri til að njóta slíkar klassískar tónlistar á föstudaginn í þessari viku í Hörpu en þá kemur í heimsókn í tónlistarhúsið við höfnina Kammersveit Vínar og Berlínar, sveit sem mönnuð er hljóðfæraleikurum úr tveimur af merkustu menningarstofnunum Mið-Evrópu, Fílharmóníusveitunum í borgunum tveimur Vín og Berlín.

Mynd með færslu
 Mynd: Berlin and Vienna Chamber Orches
Kammersveit Vínar og Berlínar leikur sanna klassík í Hörpu á föstudag.

Þarna ætti að vera á ferðinni sú hárfína spilatækni sem hentar best til að gæða þessa tónlist spruðlandi lífi, en á efnisskránni eru verk Haydns og Mozarts. Concertone - tvöfaldur konsert fyrir tvær fiðlur eftir Mozart, tvær sinfóníur Haydns (Passíusinfónían - La passione og Eldsinfónían - Feuer) og sellókonsertinn í C-dúr sem Gautier Capucon leikur einleik í. Capucon er einn eftirsóknarverðasti sellóleikari heims um þessar mundir. Reiner Honeck, konsertmeistari sjálfrar Vínarfílharmóníunnar fer fyrir sveitinni og stýrir flutningi verkanna.

Jú - þetta er orðin klassík en flest voru tónskáld þessa tíma fullviss um að tónlist þeirra myndi ekki lifa af og berast til komandi kynslóða. Menn voru ekkert svo uppteknir af því að skrifa fyrir eilífiðina, það kom síðar.

Týndur konsert finnst

C-dúr sellókonsertinn eftir Haydn sem hjómar á tónleikunum á föstudag á sér merka sögu. Verkið var talið týnt fram til ársins 1961 þegar tékkneskur tónlistarfræðingur rakst á afrit af því í handritasafni þjóðminjasafnsins í Prag. Efasemdarraddir um upprunaleika verksins og tengsl við Haydn hljóðnuðu fljótlega enda er aðalstef fyrsta kaflans að finna í nótubókum Haydns frá 1765. Um þetta leyti var Haydn að semja sinfóníur sem númeraðar eru með einni tölu af fyrsta tugnum en þær áttu eftir að verða 106 talsins.

Konsertinn var saminn fyrir vin tónskáldsins Joseph Franz Weigl sem var fyrsti sellisti við hljómsveit prinsins af Esterhazy sem Haydn hafði til umráða árum saman og gat með hjálp sveitarinnar prófað sig áfram í tónsmíðatækni sinni.

Tímabil eru óskýr og búin til eftir á

Annars má segja að rétt eins og Monteverdi stóð með fætur í tveimur tímabilum, endureisn og barokki, lýsi sellókonsert Haydns öðrum skilum í tónlistarsögunni. Hann er barokkskotinn í meira lagi, bassalínugangur og notkun sembal koma upp um þá hlið.

En eftir að tékkneski sellóleikarinn Miloš Sádlo flutti verkið í fyrsta sinn í nútímanum með tékknesku útvarpshljómsveitinni og Sir Charles Mackerras, hefur konsertinn orðið sannarlega sígildur. Sellistar þurfa flestir ef ekki allir að spreyta sig á honum og gera að sínum. Heilu bunkarnir að fyrirtaks útgáfum eru til.

Það verður því gaman að heyra Gautier Capucon spreyta sig á konsertinum á föstudag með þessum auðfúsugestum frá Vín og Berlin, en hér er að lokum smá brot úr túlkun tékkans Milós Sadló sem fyrstur nútímamanna fékk að takast á við þessa klassík.

Það er ekkert einfalt við það hvernig hlutirnir verða að klassík.

Hér má heyra flutning Milos Sadlo á c-dúr konserti Haydns.

Tónleikar Kammersveitar Vínar og Berlínar eru í Hörpu á föstudagskvöld, allar nánari upplýsingar má finna hér.