Hugmyndasmiður tölvupóstsins látinn

06.03.2016 - 23:50
An undated photo provided by Raytheon BBN Technologies shows Raymond Tomlinson. Tomlinson, the inventor of modern email and selector of the "@" symbol, has died. Raytheon Co., his employer, on Sunday, March 6, 2016, confirmed his death; the
 Mynd: AP  -  Raytheon BBN Technologies via th
Ray Tomlinson, forritari frá Bandaríkjunum, er látinn, 74 ára að aldri. Tomlinson fann upp beinan samskiptamáta stafrænna skilaboða á milli véla sem flestir þekkja í dag sem tölvupóst. Hann lést á laugardag.

Uppfinning Tomlinsons hefur haft mikil áhrif á samskipti mannkyns. Hann er einnig upphafsmaður @-merkisins sem notað er á milli notandanafns og hýsingar tölvupóstfangs. Hans var minnst víða í hinum stafræna heimi. Stærsta tölvupóstveita heims, Gmail frá Google, þakkaði honum fyrir framlag sitt.

Á bloggi sínu rifjaði Tomlinson upp þá daga sem fóru í uppfinningu tölvupóstsins. Fyrstu póstarnir fóru á milli tölva sem voru hlið við hlið á sama borði. Hann man ekki hver fyrstu skilaboðin voru en býst við því að þau hafi verið eitthvað á borð við QWERTYUIOP, sem er efsta röð lyklaborðs. Þegar hann var orðinn ánægður með afraksturinn sendi hann póst á samstarfsfélaga sína þar sem hann útskýrði hvernig uppfinningin virkaði. Þannig var fyrsti tölvupósturinn sem var sendur útskýring á því hvernig hann virkaði.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV