„Horfðist í augu við byssumanninn“

14.01.2016 - 15:35
Skotárásir áttu stærstan þátt í því að kvikmyndatónskáldið Atli Örvarsson og Anna, eiginkona hans, ákváðu að flytja til Íslands frá Bandaríkjunum í haust. Í þrígang höfðu slíkar árásir áhrif á líf þeirra með beinum hætti.

Hjónin búa nú á Akureyri, ásamt tveimur börnum sínum en þar vilja þau vera til að búa börnum sínum öruggt umhverfi. Tvær árásanna tengdust fjölskyldu Önnu. Í fyrra skiptið var faðir hennar við nám í lögfræði þegar ósáttur nemandi réðst inn í kennslustofuna og hóf að skjóta. Faðir Önnu komst lifandi frá þeirri raun og gat hringt í lögreglu.

„Hann kom inn og pabbi náði augnsambandi við hann, meðan hann hélt á byssunni. Byssumanninum brá við það og sneri sér við, svo pabbi gat hlaupið í burtu og gat náð í hjálp frá lögreglu á meðan á skotárásinni stóð,“ segir Anna í myndskeiðinu sem fylgir.

Bróðir Önnu missti kennara sinn við Virginia Tech háskólann í Bandaríkjunum, í mannskæðustu skotárás í sögu Bandaríkjanna þar sem byssumaður er einn á ferð. Það var svo árið 2013 sem byssumaður gekk um hverfi fjölskyldunnar í Santa Monica en Anna sem var á heimleið, þurfti að koma sér og syni sínum í gegnum ringlulreiðina og heim þar sem dóttir hennar var ásamt barnapíu. 

Nánar verður fjallað um málið í sjónvarpsfréttum og Kastljósi í kvöld.

Rögnvaldur Már Helgason
Fréttastofa RÚV
Kastljós