Hinrik: „Drottningin hefur haft mig að fífli“

08.08.2017 - 14:25
epa05745967 HRH Queen Margrethe of Denmark (L) and Prince Consort Henrik (R) welcome Iceland's President Gudni Thorlacius Johannesson (2-L) and his wife Eliza Jean Reid (3-L) at Amalienborg Castle in Copenhagen, Denmark, 24 January 2017. The
Margrét og Hinrik á góðri stundu með íslensku forsetahjónunum.  Mynd: EPA  -  RÚV
Hinrik prins, eiginmaður Margrétar Þórhildar Danadrottningar, heldur áfram að grafa sér gröf með ummælum og athöfnum. Í síðustu viku var greint frá því að hann hefði tekið þá sögulegu ákvörðun að láta ekki jarða sig við hlið konu sinnar í dómkirkjunni í Hróarskeldu. Dönum fannst það heldur kaldar kveðjur til drottningarinnar. Nú hefur danska vikublaðið Se og Hør eftir prinsinum að það sé drottningin sem hafi haft hann að fífli: „Ég giftist henni ekki til að láta grafa mig í Hróarskeldu.“

„Hún sveik mig,“ er ein fyrirsögnin á forsíðu blaðsins sem kemur út á morgun. „Hinrik ræðst gegn Margréti,“ er önnur. Ummælin hafa þegar vakið mikla athygli. Þeim er slegið upp á forsíðu DR,  Jyllandsposten og Politiken, svo fátt eitt sé nefnt. 

Blaðamaður Se og Hør hitti Hinrik á Cayx, sumarleyfisstað dönsku konungsfjölskyldunnar í Suður-Frakklandi en þar hefur hann alið manninn síðan um miðjan júlí. Samkvæmt frétt Se og Hør er Margrét væntanleg til Frakklands í dag og ætlar að verja næsta hálfa mánuðinum með Hinriki.

Í viðtali við blaðið segist Hinrik enn elska Margréti. Það sé þó hún sem hafi haft hann að fífli. Með frétt á vef blaðsins er síðan hægt að skoða stutt myndskeið þar sem drottningarmaðurinn lætur móðan mása: „Konan mín hefur ákveðið að hún sé drottningin og ég er ánægður með það. Sem manneskja verður hún þó að vita að í hjónabandi eru karl og kona jafnrétthá.“

Hinrik hefur verið óánægður með stöðu sína innan dönsku hirðarinnar og sú óánægja hefur ágerst undanfarin ár. Hinrik viðurkennir í viðtalinu að þetta sé ástæðan fyrir því að hann vilji ekki hvíla við hlið konu sinnar eftir hinsta dag. „Hún hefur ekki sýnt mér þá virðingu sem venjuleg kona myndi sýna manni sínum,“ er haft eftir Hinriki. 

Jóakim prins, sonur Margrétar og Hinriks, sagði í viðtali við Se og Hör í síðustu viku að ákvörðun föður hans hefði ekki komið fjölskyldunni á óvart. „Við höfum vitað þetta um nokkurt skeið og allt sem þarf að segja hefur verið sagt.“