Helle Thorning-Schmidt stýrir Barnaheillum

14.01.2016 - 07:02
Mynd með færslu
 Mynd: DR
Helle Thorning-Schmidt, fyrrverandi forsætisráðherra Danmerkur, hefur verið ráðin framkvæmdastjóri samtakanna Save the Children International, eða Alþjóðasamtakanna Barnaheilla. Hún tekur við stöðunni í apríl næstkomandi og yfirgefur þar með danska stjórnmálasviðið, en hún situr enn á þingi fyrir flokk sinn, sósíaldemókrata, sem hún leiddi á árunum 2005 til 2015.

Í samtali við danska ríkisútvarpið segir Thorning-Schmidt að hún hafi sótt um og fengið draumastarfið sitt. Hún geti vart hugsað sér betri vinnustað, og þótt henni þyki nokkur eftirsjá í pólitíkinni og félögum sínum úr henni þá sé þetta rétti tíminn til að söðla um.

Thorning-Schmidt undirstrikar að hún muni ekki skipta sér sérstaklega af velferð danskra barna eða öðrum dönskum málefnum í sinni nýju stöðu. Hún muni starfa sem framkvæmdastjóri mjög stórra, fjölþjóðlegra samtaka, sem séu með starfsemi um allan heim, og hennar hlutverk sé að halda utan um þá starfsemi. „Ég hef aðeins sótt um tvö störf,“ segir hún, „stöðu yfirmanns Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna, og svo þessa. Ég er búinn að fara í fjölda viðtala og þetta hefur verið mjög langt ferli. Þetta er nýr kapítuli í mínu lífi. Ég kem til með að vinna að einum málstað, málstað barna, sem er mér mikið hjartans mál.“

Thorning-Schmidt tapaði slagnum um stöðu framkvæmdastjóra flóttamannahjálparinnar síðasta haust. Valið stóð á endanum á milli hennar og Ítalans Filippo Grandi, sem hafði 30 ára reynslu af mannúðarstarfi og vinnu með flóttafólki, og 20 af þeim 30 árum starfaði hann að þeim málum á vegum Sameinuðu þjóðanna.

Ban Ki-moon valdi Grandi þegar á hólminn var komið, ekki síst í ljósi þess fordæmafáa fjölda fólks, sem nú er á flótta vítt og breitt í heiminum. Þegar Thorning Schmidt tekur sérstaklega fram að hún hafi aðeins sótt um tvö störf vísar hún til þess, að hún þótt hún hafi lengi verið orðuð við stöðu forseta leiðtogaráðs Evrópusambandsins, sem Pólverjinn Donald Tusk hreppti, þá hafi hún aldrei sóst eftir henni.

Barnaheill eru með aðildarfélög í 30 löndum, þar á meðal á Íslandi, sem starfa að málefnum barna í ríflega 120 löndum. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV