Heimsmet hjá Jóni Margeiri annan daginn í röð

14.02.2016 - 10:14
Mynd með færslu
Jón Margeir Sverrisson er í metaham þessa dagana.  Mynd: ifsport.is
Sundkappinn Jón Margeir Sverrisson setti í dag heimsmet í sundi fatlaðra annan daginn í röð á alþjóðlegu móti í Malmö í Svíþjóð. Jón Margeir bætti heimsmetið í 100 metra skriðsundi í dag, en í 400 metra skriðsundi í gær.

Jón Margeir synti 100 metra skriðsundið á 53,42 sekúndum í dag og bætti þar með heimsmet Bretans Jack Thomas í S14, fötlunarflokki þroskahamlaðra um 14 hundruðustu úr sekúndu.

Jón Margeir hafði reyndar áður synt á 53,41 sekúndu, en á óviðurkenndu móti. En nú á hann staðfest heimsmet í 100 metra skriðsundi.

Jón Margeir hefur sjaldan verið í eins góðu formi og nú, en í gær sló hann heimsmetið í 400 metra skriðsundi á sama móti, en fyrra met var einnig í eigu Bretans Jack Thomas.

Mynd með færslu
Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson
íþróttafréttamaður