Heiður himinn og regnbogi eftir storminn

Kesha
 · 
Poppland
 · 
Tónlist

Heiður himinn og regnbogi eftir storminn

Kesha
 · 
Poppland
 · 
Tónlist
Mynd með færslu
15.07.2017 - 14:47.Atli Þór Ægisson.Poppland
Tónlistarkonan Kesha sendi á dögunum frá sér nýtt lag, sem er hennar fyrsta í fjögur ár. Fyrir tæpum þremur árum kærði hún framleiðanda sinn, meðal annars fyrir kynferðisofbeldi og hefur síðan staðið í málaferlum við hann og útgáfufyrirtækið, og verið miðpunkturinn í miklu fjölmiðlafári vestanhafs.

Kærurnar voru upphafið að löngu og flóknu máli sem staðið hefur yfir undanfarin þrjú ár, en Kesha hefur á þeim tíma verið samningsbundin meintum kvalara sínum og því ekki getað gefið út nýja tónlist. Allt þar til í síðustu viku en þá sendi Kesha frá sér lagið „Praying“ og tilkynnti stuttu síðar að þriðja breiðskífa hennar, „Rainbow“ myndi koma út þann 11. ágúst næstkomandi. Nína Richter, menningarrýnir, reifaði þetta merkilega mál í Popplandi á Rás 2.

Skaust upp á stjörnuhimininn

Tónlistarferill Keshu hófst formlega árið 2005, þegar hún var aðeins 18 ára gömul en þá skrifaði hún undir útgáfusamning við framleiðandann Lukasz Gottwald, sem er betur þekktur sem Dr. Luke, og útgáfufyrirtæki hans, Kemosabe sem er í eigu útgáfurisans Sony. Kesha, eða Ke$ha eins og hún kaus að skrifa það þá, sló í gegn árið 2010 með fyrstu plötu sinni, „Animal“ og lagið „Tik Tok“ varð það vinsælasta sem kvenkyns listamaður hafði gefið út um áratugaskeið.

Önnur platan, „Warrior“ kom út árið 2012 og naut einnig mikilla vinsælda, og ljóst að Kesha var þá orðinn einn ástsælasti tónlistarmaður Bandaríkjanna

Endurskoðaði ferilinn og lífið

Í byrjun árs 2014 ákvað Kesha að gera breytingar á sínu lífi, hún fór í meðferð og hætti neyslu á áfengi og vímuefnum, sem gjarnan eiga til að fylgja lífi vinsælla tónlistarmanna, og losaði sig í leiðinni við dollaramerkið í nafninu. Í október sama ár kærði hún Dr. Luke fyrir ítrekuð brot gegn sér á tæplega tíu ára tímabili, m.a. kynferðisofbeldi, líkamsárás, kynferðislega áreitni og brot á siðalögum Kaliforníu um viðskiptahætti, auk þess sem hann átti að hafa gefið henni nauðgunarlyf og misnotað aðstöðu sína með ýmsum hætti, en 13 ára aldursmunur er á honum og Keshu.

epa02127225 US musician and songwriter Lukasz 'Dr. Luke' Gottwald (L) and US singer Katy Perry (R) display their awards during the 27th Annual ASCAP Pop Music Awards at the Renaissance Hollywood Hotel in Los Angeles, California, USA, 21 April
 Mynd: EPA
Dr. Luke ásamt Katy Perry árið 2010

Þessar kærur eru upphafið að stóru máli sem mikið hefur verið í fjölmiðlum vestanhafs undanfarin þrjú ár. Allan þann tíma hefur Kesha verið samningsbundin útgáfufyrirtæki Dr. Luke og því ekki getað gefið út neina nýja tónlist. „Tónlistarmenn hafa skipt sér í fylkingar, með og á móti Keshu, Dr. Luke neitar sök og er það bara orð gegn orði. Kesha er samningsbundin Dr. Luke á meðan þessu stendur og það líður heilt ár áður hún fer fram á formlega riftingu samningsins,“ segir Nína.

Ólíkt mörgum sambærilegum málum

„Það fer þarna af stað stór herferð á samfélagsmiðlum í kjölfarið undir myllumerkinu #FreeKesha, og þarna fara stóru nöfnin í bransanum að skipta sér að þessu, Lady Gaga, leikkonan Lena Dunham og fleiri sem eru að tjá sig opinberlega um þetta mál,“ segir Nína. „Þetta vekur upp umræðu sem er í gangi líka hérna á Íslandi, með svona mál, sérstaklega þegar það varðar fræga einstaklinga. Hvernig tökum við sem samfélag á þessu, hvernig tölum við um þetta og hvernig umgangast fjölmiðlar þetta.“

Ákærurnar voru að lokum látnar niður falla í Kaliforníuríki en hluti málsins er þó enn í gangi í New York. Nína á ekki von á því að Dr. Luke verði gerð refsins úr þessu. „Það er líklegra að svo verði ekki, ef litið er til sambærilegra mála í Bandaríkjunum þar sem frægir og virtir menn í poppbransanum hafa gerst uppvísir að svona löguðu. Það eru fræg dæmi víða, það er til fullt af frægu fólki sem hefur níðst á konum og jafnvel börnum og aldrei þurft að gjalda fyrir það,“ segir Nína, og bendir á að það sem greini þetta mál frá öðrum svipuðum málum innan skemmtanabransans, er að Kesha er mun frægari en Dr. Luke. „Ef maður skoðar til dæmis Cosby málaferlin, þar eru konur sem eru ekki þekktar að kæra frægan mann. En ef maður snýr þessu við, hvað segir það? Það er mjög áhugavert að skoða þetta mál.“

„Skítastormurinn“ að baki

Vegna málaferlanna og útgáfusamnings Keshu hefur hún ekki getað gefið út nýja tónlist, allt þar til í síðustu viku en þá sendi Kesha frá sér lagið „Praying“ og tilkynnti stuttu síðar að þriðja breiðskífa hennar, „Rainbow“, eða Regnbogi, myndi koma út þann 11. ágúst næstkomandi. Nafnið er ákveðin vísun í málaferlin en Kesha segir að eftir „skítastorm“ (e. shitstorm) síðustu ára sé nú kominn heiður himinn og regnbogi. Í laginu eru ekki nefnd nein nöfn, en ljóst þykir að Kesha syngur þar um Dr. Luke og málaferli síðustu ára. Núna í vikunni sendi Kesha síðan frá sér annað lag af plötunni, sem heitir „Woman“.

„Hvað þennan útgáfusamning varðar, þá er þessum deilum víst ekki lögformlega lokið og það hefur ekkert komið frá Sony um riftun samningsins. En hún segist vera laus og platan er um frelsið,“ segir Nína, en Kesha er þó enn samningsbundin Kemosabe og útlit fyrir að nýja platan komi út undir þeirra merkjum.

Flytur lag eftir mömmu með Dolly

Á Rainbow fær Kesha til liðs við sig nokkra góða gesti, t.d. rokkhljómsveitina Eagles of Death Metal og kántrístjörnuna Dolly Parton. Móðir Keshu, Rosemary Patricia Sebert, er lagahöfundur og samdi lagið „Old Flames“ á áttunda áratugnum sem náði talsverðum vinsældum í flutningi Dolly Parton. Þetta lag verður einmitt í nýrri útgáfu á Rainbow, flutt af Keshu og Dolly Parton.