HB Grandi frestar aðgerðum á Akranesi

29.03.2017 - 15:56
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhann Bjarni Kolbeinsson  -  RÚV
HB Grandi hefur frestað því að loka vinnslustöðvinni á Akranesi og ætlar að hefja viðræður við bæjaryfirvöld um framhaldið. Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda og Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, hittust á fundi nú síðdegis þar sem þetta var rætt. Sá síðarnefndi segir niðurstöðuna ákveðinn varnarsigur. Ef ekki gengur að semja við Akraneskaupstað lokar fyrirtækið vinnslustöðvum sínum í bænum 1. september.

Loka 1. september ef samkomulag næst ekki

Fulltrúar Verkalýðsfélags Akraness lögðu til á fundinum að HB Grandi fresti aðgerðunum til að reyna að ná samkomulagi við bæjaryfirvöld á Akranesi. Vilhjálmur Birgisson formaður segir það hafa verið gert á grundvelli viljayfirlýsingar bæjaryfirvalda sem lögð var fram í gær til að mæta þörfum fyrirtækisins um stækkun á höfninni og betri aðstöðu.

„Og það er skemmst frá því að segja að fyrirtækið var tilbúið til að lýsa yfir fullum stuðningi við að hefja þessar viðræður við Akraneskaupstað og þeir ætla að reyna að ljúka þeim viðræðum eins fljótt og verða má. En ef þær viðræður munu ekki leiða til jákvæðrar niðurstöðu fyrir fyrirtækið, þá kemur til lokunar á landvinnslu HB Granda á Akranesi 1. september.”