„Harkaleg yfirtaka Arion banka“

13.01.2016 - 22:19
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot  -  RUV
Athafnamaður á Siglufirði gagnrýnir harkalega yfirtöku Arion banka á Afli sparisjóði. Hann segir að almenningurhafi orðið af hundruðum milljóna króna vegna yfirgangs bankans. Mat endurskoðenda á stöðu sjóðsins sé engan veginn eðlilegt. Endurskoðunarráð hefur ekki svarað umkvörtunum hans.

Heimamenn í Fjallabyggð eru ósáttir við hvernig Arion banki hefur staðið að yfirtöku á Afli Sparisjóði en sjóðurinn fór illa út úr hruninu. Bankinn færði niður lánasafn sjóðsins um 2,3 milljarða króna á fyrstu mánuðum síðasta árs.

Róbert Guðfinnsson er athafnamaður á Siglufirði hann segir að lánasafnið hafi verið fært niður með þeim rökum að um væri að ræða óuppgerð mál síðan í hruninu.

„Mér sýnist þeir hafa verið mjög seinir að fatta þá. Allt er þetta eitt stórt leikrit. Leikrit sem er gert til þess að koma í veg fyrir að þessi samfélagssjóður verði til.“

Þar með hafi Fjallabyggð og Skagafjörður orðið af hundruðum milljóna króna sem hefðu réttilega runnið í samfélagssjóð fyrir menningu og afþreyingu á svæðinu.

„Eftir stendur að öll endurskoðun á sjóðnum var mjög einkennileg. Hann var nánast sagður gjaldþrota þrátt fyrir að ári áður hafi hann verið með umtalsvert eigið fé.“

Róbert hefur sent Endurskoðunarráði bréf þar sem farið er fram á að farið sé ofan í saumana á endurskoðun sjóðsins síðustu misserin. Erindinu hefur enn ekki verið svarað þar sem tveir nefndarmenn voru vanhæfir. Beiðni var sent til Félags löggiltra endurskoðenda um nýja tilnefningu. Ekkert hefur borið á nýrri tilnefningu, en svo vill til að formaður Félags löggiltra endurskoðenda er endurskoðandinn sem endurskoðaði Afl sparisjóð.

„Mér sýnist að það sé einhvers staðar á bilinu 500 milljónir og upp í 1,5 milljarð króna sem ætla mætti að hefði átt að fara í samfélagssjóð í Fjallabyggð og í Skagafirði.“

Hann segir þrælsótta heimamanna mikinn á svæðinu því Arion stýri þar fjölda verkefna sem fólk á lífsviðurværi sitt undir. Málið sé þar að auki mjög flókið og margbrotið og á fárra færi að skilja til hlítar.

„Þetta nýtir Arion banki sér. Hann nýtir sér að fólk er veikt fyrir. Þeir eru með fullt af skráningarstörfum og annað inni í samfélaginu. Fólk er hrætt við að missa störfin. Þannig að menn láta kyrrt liggja.“ 

„ Í Arion banka situr fólk í stjórn sem að þiggur fyrir það dágóða fúlgu en því virðist vera alveg sama. Það snertir það ekki þó þetta sé gert. Og ef að lífeyrirsjóðirnir ætla að kaupa þennan banka þá vonast sé svo sannarlega til þess að þeir kanni hvernig þessi mál standa.“

Í tilkynningu sem Arion banki sendi nú skömmu fyrir fréttir vegna málsins segir að Afl sparisjóður hafi glímt við mikla fjárhagserfiðleika um árabil. Á síðasta ári hafi KPMG gert ítarlega skoðun á lánasafninu sem leiddi í ljós að staða sjóðsins var mun verri en talið var og var bókfært eigið fé sparisjóðsins metið neikvætt um 2,3 milljarða króna um mitt síðasta ár. Sú vinna sem farið hafi fram síðan staðfesti enn frekar niðurstöðu KPMG. Því fari fjarri að til hafi verið jákvætt óráðstafað eigið fé í sjóðnum, sem hefði verið forsenda stofnunar svokallaðs samfélagssjóðs.

 

Mynd með færslu
María Sigrún Hilmarsdóttir
Fréttastofa RÚV