Haraldur Briem: Bráðsmitandi veira

11.08.2017 - 12:34
Mynd með færslu
 Mynd: Þórdís Arnljótsdóttir  -  RÚV
Haraldur Briem, starfandi sóttvarnarlæknir hjá embætti Landlæknis, segir að sýni hafi verið tekin úr fólki sem veiktist við Úlfljótsvatn. Niðurstaða úr rannsóknum á sýnunum geti fengist síðar í dag, en líklega sé þetta nórósýking sem gengur yfir á einum til tveimur sólarhringum. Haraldur segir að veiran sé bráðsmitandi.

„Þessi hópsýking ber öll einkenni þess að vera af völdum svokallaðrar nóróveiru sem er bráðsmitandi og veldur einkennum eins og við erum að sjá þarna; uppköstum, magaverkjum og niðurgangi í sumum tilfellum. Þetta er afskaplega einkennandi fyrir hana.“

Hvernig kemur nóróveiran upp upphaflega? Er hún í mat?

„Fólk gengur með þetta og það getur auðveldlega smitað matvæli og þetta getur smitast yfir í vatnsbúskapinn hjá okkur og þannig borist til manna ef vatnið sem við erum að drekka er ekki vel hreinsað. En síðan getur þetta líka smitast frá manni til manns. Þessi uppköst eru til dæmis mjög smitandi og ef menn eru að úða þessu frá sér getur þetta auðvitað farið yfir á næsta mann eða yfir í mat sem er á borðum og hvaðeina.“

Hefur séð það svartara

Er einhver hætta á frekari útbreiðslu út fyrir þetta svæði?

„Nei ég tel að svo sé ekki. Þetta er mjög takmörkuð hópsýking bundin við þennan hóp og hann var þarna á mjög þröngu svæði á Úlfljótsvatni og síðan hefur hann fengið að gista í þessari fjöldahjálparmiðstöð sem komið var upp í Hveragerði. Þannig að ég á alls ekki von á að þetta breiðist neitt út.“

Hefur verið gripið til einhverra ráðstafana í Reykjavík? Eru einhverjir í viðbragðsstöðu eða eitthvað slíkt?

„Já Landspítalinn fékk viðvörun um að þetta væri í gangi þannig að ef mál þróuðust þannig yrðu sjúklingar kannski sendir þangað en til þess hefur sem betur fer ekki komið.“

Það er ljóst að margir hafa veikst þarna - er þetta með verri tilfellum sem þú manst eftir?

„Þetta er ansi stórt. Ég man hins vegar eftir stórum faröldrum, sérstaklega einum sem kom upp í Húsafelli fyrir allmörgum árum og mátti rekja til vatnsmengunar þar. En svo sjáum við þetta líka í skemmtiferðarskipum og það geta verið mun stærri faraldrar þar um borð satt best að segja. Þetta er vissulega stór hópsýking en ég hef séð það svartara,“ segir Haraldur.