Handtóku mann en slepptu honum aftur

17.03.2017 - 11:09
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson  -  RÚV
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók í gærkvöldi mann í tengslum við rannsókn á vopnuðu ráni í lyfjaverslun Apótekarans á Bíldshöfða í gærmorgun. Manninum var hins vegar sleppt aftur og hann er ekki talinn tengjast málinu. Ræninginn ógnaði tveimur með hnífi iðnaðarmönnum sem reyndu að stöðva hann á flóttanum. Maðurinn komst undan og lögreglan er engu nær um hver var að verki. Lögreglan hefur ekki tekið ákvörðun um hvort myndir úr ráninu verða birtar.

Ránið var framið á tíunda tímanum í gærmorgun. Engan sakaði í ráninu en talið er að einn maður hafi verið að verki. Maðurinn huldi andlit sitt með klút, var vopnaður hnífi og tókst að komast undan með eitthvað af lyfjum. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu tók hann aðallega rítalín og concerta en enga peninga.

Maðurinn hljóp í átt að Höfðahverfinu. Hann er talinn vera um 170 sm á hæð og grannvaxinn. Hann var klæddur í rauða peysu, gallabuxur og með húfu. Þá var hann með svartan bakpoka.

Þeir sem geta veitt upplýsingar um málið, eða telja sig hafa séð til ferða mannsins, eru beðnir um að hringja strax í lögreglu í síma 112.

Mynd með færslu
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV