Handtekinn eftir að hafa hótað að skjóta fólk

16.08.2017 - 15:02
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Ingi Garðarsson  -  RÚV
Sérsveit lögreglu, ásamt almennri lögreglu og slökkviliði, var send að skrifstofuhúsnæði við Cuxhavengötu í Hafnarfirði á öðrum tímanum í dag eftir að leigjandi í húsinu hótaði að vinna fólki mein með skotvopni. Að sögn Sævars Guðmundssonar, varðstjóra hjá lögreglu, hringdi maðurinn í Neyðarlínuna og tilkynnti um vatnsleka og sagði að ef hann fengi ekki senda aðstoð vegna lekans mundi hann grípa til skotvopnsins.

Sævar segir að maðurinn hafi verið handtekinn og að „eitt og annað“ hafi fundist við húsleit hjá honum, án þess að vilja tíunda frekar hvað það var. Hann vill heldur ekki tjá sig um hvort maðurinn hafi í raun verið með skotvopn í fórum sínum eins og hann sagði.

Í frétt Fjarðarfrétta segir að starfsfólki í húsinu hafi verið vísað þaðan út og að einum hafi verið sagt að möguleg sprengihætta væri í norðurhluta fjórðu hæðar hússins. Sævar vill ekki tjá sig um það að svo stöddu og segir að enn sé verið að leita í húsinu.

Spurður hvort tilkynning mannsins um vatnsleka hafi átt við rök að styðjast segir Sævar að hann hafi að minnsta kosti ekki verið mikill og að létt verk hafi verið að komast fyrir hann. Það hafi ekki verið aðalmálið í þessu útkalli.

Mynd með færslu
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV