Handrit óútgefinnar Heinesen-sögu til Færeyja

17.01.2016 - 03:37
Mynd með færslu
 Mynd: KVF
Mynd með færslu
Petur hefur ekki lesið bókina, en honum fannst ómögulegt annað en að færeyska þjóðin fengi að eignast hana.  Mynd: KVF
Færeyska landstjórnin keypti í gær handritið að óútgefinni skáldsögu eftir William Heinesen, sem færeyskur borpallsstjóri keypti á uppboði í Danmörku fyrir þremur árum, þar sem landstjórnin sá sér ekki fært að gera það á þeim tíma. Skáldsagan heitir Den yderste tid, en Heinesen skrifaði skáldsögur sínar jafnan á dönsku. Borpallsstjórinn, Petur Juul Samuelsen, er guðsonur Heinis Heinesen, sonar Williams.

Þeir Petur og Heini höfðu rætt það áður að það væri stórslys, ef öll frumhandrit að verkum Heinesens enduðu í Kaupmannahöfn. Það varð til þess að Petur fór á staðinn og bauð í gripinn það sem til þurfti, sem reyndust 114.000 danskar krónur, ríflega tvær milljónir íslenskar. Færeyska landstjórnin sýndi því lítinn áhuga í fyrstu að kaupa af honum handritið. Samningar tókust þó að lokum og í gær, á 116 ára afmælisdegi Williams Heinesens, afhenti Petur handritið í menntamálaráðuneytinu í Þórshöfn.

Árin þrjú sem liðu frá kaupunum geymdi hann handritið í bankahólfi, en las það þó aldrei. Það gerði bókmenntafræðingurinn Bergur Djurhuus Hansen hjá Fróðskaparsetrinu hins vegar. Bergur, sem er eini maðurinn í Færeyjum sem hefur lesið söguna enn sem komið er, segir hana fjalla um trúarofstæki og átök föður og sonar. Faðirinn, sem er bakari í litlu þorpi á fjórða áratug tuttugust aldar, frelsast og ákveður að gerast predikari og trúboði, en sonurinn á afar erfitt með að sætta sig við það.

Aðspurður hvort honum þyki ekki einboðið að bókin verði gefin út, svo fleiri fái að njóta, segir Bergur það ekki endilega blasa við. Heinesen hafi jú sjálfur ákveðið að gera það ekki. Hann efast því um réttmæti þess að Den yderste tid út sem sjálfstætt verk, en telur vel koma til greina að hafa hana með í nýrri heildarútgáfu verka hans þegar þar að kemur.

Hér má horfa á frétt Færeyska Kringvarpsins um Den yderste tid. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV