Hagnast á því að veita ókeypis sálfræðimeðferð

26.01.2016 - 18:31
„Þetta er engin spurning, frá efnahagslegum sjónarhóli er fráleitt að taka ekki upp þessa stefnu, sérstaklega ef efnahagsástandið er bágt. Breska geðheilbrigðisstefnan sparar ríkinu gífurlegar fjárhæðir og eykur hamingju fólks til muna." Þetta segir David M. Clark, prófessor við Oxford háskóla og ráðgjafi breska heilbrigðisráðuneytisins á sviði geðheilbrigðismála.

 Rúmlega hálf milljón fær meðferð

530 þúsund Bretar sem þjást af kvíða og þunglyndi njóta árlega gagnreyndrar sálfræðimeðferðar og greiða ekki pund fyrir. Í Bretlandi hefur verið unnið að því að bæta þjónustu við fólk með algengar geðraskanir frá árinu 2008. 

Heilbrigðisráðherra horfir til stefnunnar

Clark er annar af upphafsmönnum bresku stefnunnar, hinn er hagfræðingurinn Richard Layard. Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, horfir til þessarar stefnu. Hann hyggst fjölga stöðugildum sálfræðinga á heilsugæslustöðvum úr 15 í 37 á næstu tveimur árum, gangi það eftir verður unnt að bjóða sálfræðiþjónustu á heilsugæslustöðvum í öllum heilbrigðisumdæmum landsins. Í Bretlandi er einn sálfræðingur á hverja 9000 íbúa. Hlutfallið yrði það sama hér.

Kostar sitt að fara til sálfræðings

Hér á landi er aðgengi að niðurgreiddri sálfræðimeðferð lítið, vilji Íslendingur sem skiptir við sjálfstætt starfandi sálfræðing fara í einn sálfræðitíma á viku í þrjá mánuði myndi það kosta hann um 150 þúsund krónur. Ætla má að þörfin fyrir sálfræðiþjónustu sé nokkuð mikil hér á landi. Nýlega greindi RÚV frá því að sífellt fjölgaði í hópi barna sem glíma við kvíðaraskanir. Nýleg skimun þjónustumiðstöðvar Breiðholts leiddi í ljós að 19% unglinga í 9. bekk þjáðust af kvíða. Þá má nefna að geðrænir kvillar eru ásamt stoðkerfissjúkdómum helsta orsök örorku hér á landi. Hjá körlum er hún orsök örorku í 44% tilfella og hjá konum í 34% tilfella.

Tilraun til að sporna gegn óréttlátu kerfi

Áður var lyfjameðferð eina niðurgreidda úrræðið sem Bretum, sem glímdu við geðraskanir, stóð til boða. Clark segir stefnuna tilraun til þess að sporna við ákveðnu óréttlæti í kerfinu. Geðræn vandamál hafi síður verið meðhöndluð en önnur heilsufarsvandamál, þau hafi ekki þótt jafn brýn.

Vikulega í þrjá mánuði

Flestir þeirra 530 þúsund Breta sem í dag njóta meðferðar fara vikulega í einstaklingsviðtöl og stendur meðferðin í tvo til þrjá mánuði. Fimm gagnreyndum meðferðum er beitt gegn þunglyndi, fólki sem upplifir þunglyndi vegna sambandserfiðleika stendur til boða að gangast undir parameðferð. Hugræn atferlismeðferð reynist samkvæmt rannsóknum best gegn kvíða og áfallastreitu. Henni er því beitt gegn þessum kvillum.

Netmeðferð gæti nýst hérlendis

Sumir fá aðstoð við að hjálpa sér sjálfir, fá verkefnabók og ræða reglulega við sálfræðing í síma. Nú er lögð áhersla á að þróa fjarmeðferð í gegnum netið. Clark segir að slík meðferð gæti komið sér vel á strjálbýlu landi eins og Íslandi. Fólk leysi verkefni á netinu og eigi í samskiptum við sálfræðing með tölvupósti og myndsamtölum. Þetta gagnist líka þeim sem eigi erfitt með að fara frá vinnu, þeir geti unnið í andlegu hliðinni á kvöldin eða um helgar. Hann segir rannsóknir benda til þess að netmeðferð geti skilað jafngóðum árangri og samtalsmeðferð. Til þess þurfi þó tvennt að koma til. Forritin þurfa að vera góð og gagnreynd og meðferðaraðilarnir þurfa að vera þjálfaðir í því að veita fjarstuðning.

Clark segir rannsóknir hafa sýnt að þrír af hverjum fjórum sjúklingum kysu heldur sálfræðimeðferð stæði hún þeim til boða. Ástæðan sé einkum sú að langtímaáhrif sálfræðimeðferðar við þessum sjúkdómum gagnist oft betur en lyf, fólk læri nýjar leiðir til þess að glíma við tilfinningaleg vandamál og erfiðar hugsanir og búi að því alla tíð.

Beittu fyrst og fremst efnahagslegum rökum

Þegar Clark og Layard viðruðu hugmyndir sínar um framtíðarstefnu í geðheilbrigðismálum í fyrsta sinn við stjórnvöld færðu þeir einkum efnahagsleg rök fyrir því að stjórnvöld tækju stefnuna upp. Það að efla aðgengi að sálfræðiþjónustu kostaði ríkið ekki peninga heldur kæmi það út á sléttu. Hún leidditil þess að fjöldi fólks sem hefði verið frá vinnu eða á örorkubótum vegna geðrænna kvilla treysti sér aftur út á vinnumarkaðinn. Færri þyrftu á atvinnuleysis- og örorkubótum að halda og ríkið fengi auknar skatttekjur.

Ágóðinn tvöfalt meiri en kostnaðurinn

Síðar kom í ljós að ágóðinn var fjölþættari. Clark segir að fólk sem þjáist af kvíða og þunglyndi leiti oft síendurtekið til læknis vegna ýmissa líkamlegra kvilla sem í raun séu afleiðing geðrænna vandamála. Þeim sé oft beint í dýrar en óþarfar rannsóknir. Þá megi draga verulega úr heilbrigðiskostnaði með því að veita fólki sem þjáist bæði af andlegum og líkamlegum kvillum sálfræðimeðferð. Clark tekur dæmi af manni sem bæði þjáist af bæði sykursýki og þunglyndi og segir að meðhöndlun slíks sjúklings verði margfalt ódýrari fái hann meðferð við þunglyndinu samhliða. Niðurstaða Clark og Layard var sú að ágóðinn af stefnunni væri í raun tvöfalt meiri en kostnaðurinn.

Meðhöndla einungis 15% þeirra sem á þurfa að halda

Clark segir að áður hafi aðeins um 5% þeirra sem glímdu við algengar geðraskanir hlotið meðferð. Nú nái meðferðin til 15% þeirra sem þjást af kvíða og þunglyndi. Stjórnvöld hyggjast gera enn betur á þessu ári er stefnt að því að efla verkefnið enn frekar með það að markmiði að veita 25% þeirra sem glíma við kvíða og þunglyndi meðferð.

Verkefnið verður umfangsmeira

Þegar farið var af stað með verkefnið árið 2008 var lögð áhersla á að það næði til sem flestra og hefði sem mestan þjóðfélagslegan og þjóðhagslegan ábata í för með sér. Því voru kvíði og þunglyndi, algengustu geðraskanirnar, í fyrirrúmi. Nú stendur til að bjóða meðferð við fleiri sjúkdómum og röskunum, svo sem geðhvarfasýki, athyglisbresti og persónuleikaröskunum. 

Þrjár ríkisstjórnir sameinast um stefnuna

Stefnan hefur notið stuðnings þriggja ríkisstjórna. Verkamannaflokkurinn kom henni á, svo tók við samsteypustjórn og nú ráða íhaldsmenn ríkjum. Clark segir að langlífi stefnunnar megi þakka því gagnsæi sem hún einkennist af. Ráðamenn viti hvað þeir fái fyrir peninginn. Gagnsæi og stöðugt árangursmat er að sögn Clark lykilatriði í þessari stefnu Breta. Hver meðferðarþegi fyllir út stuttan spurningalista um líðan sína í hvert sinn sem hann mætir í sálfræðitíma. Þannig er fylgst með því hvort meðferðin beri árangur. Upplýsingar um frammistöðu hverrar heilsugæslustöðvar eru birtar opinberlega.

Og hvað hefur matið leitt í ljós? Um 45% þeirra sem njóta meðferðar ná sér að fullu og líðan 17% til viðbótar batnar verulega.

Clark segir ljóst að það megi gera mun betur. Árangurinn er í dag mjög mismunandi eftir heilsugæslustöðvum. Þar sem best gengur ná um 70% sjúklinga fullum bata. Markmiðið er að innan nokkura ára nái allar stöðvarnar svipuðum árangri.

Ekki markmiðið að draga úr lyfjanotkun

Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, vonast til þess að með því að beina fleirum í sálfræðimeðferð hér á landi megi draga úr lyfjanotkun. Það var ekki yfirlýst markmið bresku stefnunnar, þótt dregið hafi lítillega úr lyfjanotkun fyrir tilstilli hennar. Áhersla var fyrst og fremst lögð á að ná til sem flestra og sérstaklega þeirra sem ekki höfðu notið meðferðar áður.

 

 

 

 

 

 

 

 

Mynd með færslu
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV
Spegillinn
Þessi þáttur er í hlaðvarpi