Hafna því að setja aukið fjármagn í göngin

21.03.2017 - 12:07
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Tveir af þremur stærstu hluthöfunum í Greiðri leið ehf., ætla ekki að setja meira fjármagn í framkvæmdir við Vaðlaheiðargöng. Ríflega þrjá milljarða vantar til að hægt sé að klára göngin.

Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra, sagði í fréttum RÚV á laugardag að hann myndi beita sér fyrir því að ríkið lánaði fé í gröft Vaðlaheiðarganga, til viðbótar við það lán sem nú þegar hefur verið fest í lög. Um milljarður er eftir af því láni, en um þrjá milljarða vantar svo hægt sé að ljúka frágangi við göngin þegar slegið hefur verið í gegn. Benedikt sagðist heldur ekki útiloka það að sveitarfélög eða einkaaðilar kæmu að slíkri fjármögnun.

Sveitarfélögin ólíkleg

Pétur Þór Jónasson, stjórnarformaður í Greiðri leið sem á meirihlutann í Vaðlaheiðargöngum hf, sagði á sunnudag að sveitarfélögin hefðu hafnað því á síðasta ári að koma með aukið fé inn framkvæmdina. Ekki væri útlit fyrir að sú afstaða myndi breytast. Bæjarstjóri Akureyrarbæjar, Eiríkur Björgvinsson, sagði hinsvegar eðlilegt að slíkt yrði skoðað í samhengi við þá stöðu sem nú er komin upp.

KEA og ÚA vilja ekki borga meira

Akureyrarbær á stærsta hlutinn í Greiðri leið ehf., þar á eftir koma fjárfestingarfélagið KEA og Útgerðarfélag Akureyringa. Í svari við fyrirspurn fréttastofu segir Halldór Jóhannsson, framkvæmdastjóri KEA, að það kæmi ekki til greina að sjóðurinn myndi setja aukið fjármagn í framkvæmdina.

Í sama streng tók Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja sem á Útgerðarfélag Akureyringa. Í samtali við fréttastofu sagði hann að ákvörðun hefði verið tekin um slíkt fyrir þó nokkru síðan, áður en tafir við framkvæmdina urðu jafn miklar og raun ber vitni. Þeirri ákvörðun yrði ekki breytt úr þessu.