Hæstiréttur þyngdi dóm í nauðgunarmáli

18.05.2017 - 15:48
Mynd með færslu
 Mynd: Rúv  -  rúv
Hæstiréttur þyngdi í dag dóm yfir Marteini Jóhannssyni sem var sakfelldur fyrir að nauðga 17 ára gamalli stúlku í september fyrir þremur árum. Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi Martein í tveggja og hálfs árs fangelsi en Hæstiréttur dæmdi hann í þriggja og hálfs árs fangelsi. Hæstiréttur segir að það beri að þyngja nauðgunardóm ef þolandi í slíku máli er barn yngra en 18 ára. Þá hafi Marteinn rofið skilorð dóms sem hann hlaut í júlí fyrir tveimur árum.

Marteinn, sem var þrítugur þegar hann nauðgaði stúlkunni, þvingaði hana til að hafa við sig munnmök. Hann hélt höfði hennar að getnaðarlim sínum og hótaði að raka af henni hárið ef hún væri ekki að vilja hans.

Marteinn neitaði sök og sagði þau hafa haft kynferðismök með samþykki hennar. Héraðsdómur taldi að framburður stúlkunnar væri studdur af framburði vitna en Marteinn hefði ekki verið samkvæmur sjálfum sér og því hefði framburði hans verið hafnað sem ótrúverðugum. 

Honum var einnig gert að greiða stúlkunni eina milljón í miskabætur. 

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV