Hægt að ganga Njálu og Laxdælu í Reykjavík

01.03.2017 - 14:00
Götuheiti í höfuðborginni sækja mikið í bókmenntir þjóðarinnar og hægt er „ganga“ söguþræði Íslendingasagnanna Njálu og Laxdælu í Reykjavík. Í borginni má meðal annars finna hverfi þar sem götur eru nefndar eftir goðum úr ásatrú, hetjum Íslendingasagnanna og persónum úr bókum Halldórs Laxness.

Í suðvesturhlíð Skólavörðuholts bera göturnar heiti guðanna úr norrænu goðafræðinni: Óðinsgata, Lokastígur, Þórsgata, Baldursgata og Freyjugata. Hverfið byggðist upp frá 1906 til 1929 og stóð eitt sinn til að kalla það Ásgarð þó það hafi ekki náð útbreiðslu. Það þótti ekki fínt að búa í hverfinu á þessum tíma – eins og nú þykir – en mörg húsanna voru byggð af vanefnum enda fátækt mikil í Reykjavík á þessum árum. Guðjón Friðriksson sagnfræðingur segir frá því að árið 1925 hafi verið skrifað að „þetta kumbaldahverfi, bæri greinilegan svip ráðleysis og féleysis, og mætti því réttilega kalla það „guðlastið“. Heita mætti að goðin væru smánuð og nöfn þeirra lögð við hégóma.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Horft til suðurs út Óðinsgötu. Uppfrá henni liggja Þórsgata og Lokastígur en hverfið átti upprunalega að heita Ásgarður.

Björn að baki Kára

Norðan og austanmegin í Skólavörðuholti heita götur eftir persónum fornsagnanna. Grettisgatan er elst frá 1898, en svo koma Njálsgata, Bergþórugata og Egilsgata er yngst. Jón Karl Helgason vekur athygli á því í bók sinni Hetjan og höfundurinn að það sé athyglistvert hvernig Bergþórugata liggur samhliða Njálsgötu, og Bjarnarstígur sé að baki Kárastígs. Það vísi augljóslega í tengsl persóna í Njálssögu, hjónaband Njáls og Bergþóru, og tryggu bræðurna Björn og Kára, sem máltækin „Björn að baki Kára“ og „Hver er ber að baki nema sér bróður eigi“ eiga uppruna sinn til.

Uppröðun götuheita engin tilviljun

Njálsgatan og Grettisgatan teygja sig yfir í Norðurmýrina sem byggð var upp í fúnkísstíl á árunum fyrir stríð en þar eru öll götunöfn úr Íslendingasögunum. Uppröðun gatnanna var alls ekki út í bláinn, heldur samkvæmt áliti sérstakrar nefndar um götunöfn sem starfaði 1936. Jón Karl Helgason heldur því fram að hægt sé að ganga Njálu og Laxdælu í Reykjavík. Hægt sé að fylgja söguþræði Njálu frá syðri enda Gunnarsbrautar til norðurs, það sé saga Gunnars á Hlíðarenda. Síðan fara til vesturs eftir Skarphéðinsgötu, Njálsgötu og Bergþórugötu í átt að frásögninni af þeim Kára og Birni í Mörk í síðasta hluta sögunnar.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hægt er að fylgja sögu Gunnars á Hlíðarenda með því að ganga frá syðri enda Gunnarsbrautar í norðurátt.

Þá geti vegfarendur fylgt söguþræði Laxdælu, eftir Auðarstræti – ígildi landnámssögu Auðar Djúpúðgu í upphafi verksins – að Bollagötu, Guðrúnargötu, Kjartansgötu og Hrefnugötu, það er ástar- og deilumálunum í síðari hluta sögunnar. Það sé því engin tilviljun að gata Guðrúnar Ósvífursdóttur liggi mitt á milli gatna Kjartans og Bolla.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Guðrúnargata liggur milli Kjartansgötu og Bollagötu. Ástarþríhyrningur Guðrúnar Ósvífursdóttur, Kjartans Ólafssonar og fóstbróður hans Bolla Þorleikssonar endaði með miklum mannvígum í Laxdælu.

Grafarvogurinn er síðan alls ekki laus við bókmenntatilvísanir en nafn Gullinbrúar er komið úr kvæði eftir rómantíska 19. aldar skáldið Bjarna Thorarensen. Þá koma nöfnin á Foldahverfi og Fjallkonuvegi úr kvæðinu Eldgamla Ísafold. Halldór Laxness bjó auðvitað í Mosfellssveit en þar er nú að rísa nýtt hverfi þar sem götuheiti eru sótt í bækur nóbelsskáldsins: Ástu-Sólliljugata, Sölkugata, Snæfríðargata, Gerplustræti og Vefarastræti.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Umhverfið í Gerplustræti er nokkuð hráslagalegt eins og er, en það stendur til bóta.
Egill Helgason
dagskrárgerðarmaður
Mynd með færslu
Davíð Roach Gunnarsson
vefritstjórn
Kiljan