Gunnar flytur Perlur úr Pétri Gaut

22.11.2016 - 14:05
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Gunnar Eyjólfsson leikari er látinn, níutíu ára að aldri. Hann var einn af ástsælustu leikurum þjóðarinnar og voru sviðhlutverk hans vel á annað hundrað. Einnig kom hann margoft við sögu í Útvarpsleikhúsinu en hlutverk hans á þeim vettvangi nálgast sjöunda tuginn.

Í Þjóðleikhúsinu lék Gunnar Eyjólfsson mörg af stærstu hlutverkum leikbókmenntanna, má þar nefna Hamlet, Jimmy Porter í Horfðu reiður um öxl, Stokkmann í Þjóðníðingi, Prosperó í Ofviðrinu, Jagó í Óþelló og Willy Loman í Sölumaður deyr og svo auðvitað Pétur Gaut. Laugardaginn 3. desember kl. 14:00 endurflytur Útvarpsleikhúsið einmitt verkið Perlur úr Pétri Gaut þar sem Gunnar flytur valda kafla úr leikritinu Pétur Gautur eftir Henrik Ibsen í þýðingu Einars Benediktssonar en verkið var frumflutt á sumardaginn fyrsta árið 2006. Leikstjóri er Þórhallur Sigurðsson.

Mynd með færslu
Þorgerður E. Sigurðardóttir
dagskrárgerðarmaður
Útvarpsleikhús