Grunur um íkveikju í íbúðargámi á Fiskislóð

Slökkviliðsbíll á Slökkviliðsstöð.
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Eldur kviknaði í íbúðargámi á Fiskislóð í nótt. Tvennt var þar innivið þegar eldurinn kviknaði í sófasetti eða einhverju slíku en þau komust ósködduð út, samkvæmt upplýsingum frá Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu. Eldsupptök eru ókunn en grunur er um að kveikt hafi verið í. Maður í annarlegu ástandi var handtekinn á staðnum, grunaður um íkveikju, og bíður nú yfirheyrslu, að því er segir í tilkynningu frá lögreglu.

Tilkynning um eldinn barst stundarfjórðungi fyrir tvö í nótt. Einn dælubíll var sendur á staðinn og gengu slökkvistörf fljótt og vel. Reykræst var og taldist slökkvistarfi lokið snemma á þriðja tímanum. Gámurinn er óíbúðarhæfur eftir, en aðrar gámaeiningar sluppu óskemmdar. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV