Grunaður um brot gegn þremur konum

17.02.2017 - 16:21
Mynd með færslu
 Mynd: Ægir Þór Eysteinsson  -  RÚV
Héraðsdómur Suðurlands hefur úrskurðað spænskan karlmann í fjögurra vikna gæsluvarðhald á grundvelli almannahagsmuna en hann er grunaður um að hafa brotið gegn þremur konum á hóteli á Suðurlandi eftir árshátíð hjá fyrirtæki sem hann starfar hjá.

Þorgrímur Óli Sigurðsson, yfirlögregluþjónn, segir í samtali við fréttastofu að brotið gegn þriðju konunni sé ekki jafn alvarlegt og brotið gegn hinum konunum tveimur.  Hann vill að öðru leyti ekki tjá sig um málið.

Maðurinn, sem var handtekinn rétt fyrir klukkan sjö á mánudagsmorgun, var á árshátíð hjá fyrirtæki þar sem hann starfar ásamt konunum tveimur sem hann er grunaður um að hafa brotið gegn.

Samkvæmt heimildum fréttastofu voru konurnar hvor í sínu herbergi og mun hann hafa farið inn til þeirra og brotið gegn þeim þar.