Gjörðir í EVE í takt við markmið SÞ

11.09.2013 - 15:04
Mynd með færslu
Tölvuleikur CCP, EVE Online, er í hópi fimm sigurvegara í flokki afþreyingar og leikja í samkeppni Sameinuðu þjóðanna um bestu stafrænu lausnirnar. EVE Online, sem verður tíu ára í ár, er meðal sigurvegara í flokknum e-Entertainment & Games.

Markmið verðlaunanna er að verðlauna framúrskarandi lausnir í upplýsingatækni sem nýtist fólki.

Eldar Ástþórsson upplýsingafulltrúi CCP segir í samtali við fréttastofu RÚV að leikurinn hafi ákveðin sérkenni þó ekki sé nákvæmlega hægt að segja til um á hvaða þætti dómnefndin horfir fyrst og fremst.

„Leikurinn er sérstakur heimur með eigið hagkerfi og gjaldmiðil, samfélög og þjóðir, fyrirtæki og valdablokkir sem þrífast í þúsundum sólkerfa í órafjarlægð frá lífi okkar hér á jörðinni. Þar verða til atburðir á degi hverjum sem hafa áhrif á hundruðir þúsunda manna um heim allan."

Þá er atburðarás leiksins hönnuð af spilurunum sjálfum. Meðal annars í gegnum lýðræðislega kjörið ráð spilara sem kosið er árlega í lýðræðislegum kosningum. Eldar segir áhugavert að velta fyrir sér hvernig gjörðir í leiknum geta sammælst mörgum af markmiðum Sameinuðu þjóðanna. „Þegar þú eyðir peningum í EVE ertu ekki að stuðla að ofneyslu eins og plagar stóra hluta hins vestræna heims og þegar þú byggir geimskip í EVE ertu ekki að ganga á auðlindir jarðar. Stríð og átök í EVE hafa vissulega áhrif á þátttakendur en í þeim lætur enginn lífið."