Gísli Freyr segist ekki muna hvað var rætt

18.11.2014 - 08:13
Mynd með færslu
Gísli Freyr Valdórsson, fyrrverandi aðstoðarmaður innanríkisráðherra, segist ekki muna hvort hann hafi rætt um hælisleitandann Tony Omos í símtölum sem hann átti við þáverandi lögreglustjóra á Suðurnesjum að morgni sama dags og fréttir birtust um Omos í fjölmiðlum.

Fullyrt er í DV í dag að Gísli Freyr, þá aðstoðarmaður Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, hafi talað þrisvar sinnum í síma við Sigríði Björk Guðjónsdóttur, þáverandi lögreglustjóra á Suðurnesjum, að morgni sama dags og fréttir birtust af hælisleitandanum Tony Omos. Fréttirnar voru byggðar á minnisblaði sem Gísli Freyr lak í fjölmiðla eftir að hafa bætt við það upplýsingum um að Omos væri viðriðinn mansalsmál. 

Gísli Freyr segist í samtali við fréttastofu ekki muna eftir því að hann hafi rætt um Omos í þessum símtölum og þau séu tvö en ekki þrjú, eins og DV fullyrði. Hann segist ekki muna eftir efni tölvupóstsins. Hann tali reglulega við Sigríði og því hafi þetta ekki verið óeðlilegt. Hann segist ekki vita hvaðan upplýsingarnar um Omos komust inn í ráðuneytið. 

Í DV kemur líka fram að Gísli Freyr hafi einnig fengið tölvupóst frá embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum um málefni Omos. Fram kemur að Sigríður Björk Guðjónsdóttir, þáverandi lögreglustjóri á Suðurnesjum, hafi hringt í Gísla Frey og átt við hann samtal og samkvæmt DV hringdi Gísli Freyr sama morgun tvívegis í persónulegt símanúmer Sigríðar Bjarkar. 

Í frétt Fréttablaðsins sem birtist á forsíðu 20. nóvember var vísað í rannsóknargögn og rætt um mansalsmál sem kom upp á Suðurnesjum.
Gísli Freyr sagði í Kastljósi í síðustu viku að hann hafði bætt upplýsingunum um Omos, að hann væri viðriðinn mansalsmál, við minnisblaðið sem hann sendi svo fjölmiðlum, eftir að upplýsingar þess efnis bárust ráðuneytinu 19. nóvember. 

Sigríður Björk var svo skipuð lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins 24. júlí í sumar af Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra. Starfið var ekki auglýst en forveri Sigríðar, Stefán Eiríksson, sagði af sér embætti í sumar. 

Ekki hefur náðst í Sigríði Björk. 

Uppfært klukkan 9:30

Gísli Freyr vill árétta vegna fréttarinnar að hann muni ekki efni samtalanna við Sigríði Björk, þáverandi lögreglustjóra, í símtölunum, enda sé komið ár síðan, en fullyrðir nú að það hafi ekki verið Tony Omos.  

sunnav@ruv.is